Fréttir og tilkynningar

Fiskætasálmur Hallgríms Péturssonar

Björn Baldursson

föstudagurinn 15. nóvember 2013

Fiskætasálmur Hallgríms Péturssonar flokkast víst ekki undir hefðbunda sálma, heldur er hann þarna að lofa og prísa það sem almættið færir honum af sjávarfangi. Má af þessu sjá og lesa í neysluvenjur Íslendinga á sautjándu öldinni.

 

Afbragðsmatur er ýsan feit, 

ef hún er bæði fersk og heit, 

soðin í sjóarblandi. 

Líka prísa ég lúðuraf. 

Lax og silungur ber þó af 

hverskyns fisk hér á landi.

Langan svangan 

magann seður, 

soltinn gleður. 

Satt ég greini. 

Úldin skata er iðra reynir.  

 

Morkinn hákarl, sem matar hníf,

margra gerir að krenkja líf. 

Ríkismenn oft það reyna. 

Um háfinn hugsa húskar meir. 

Hann í eldinum steikja þeir. 

Brjósk er í staðinn beina. 

Hlýrinn rýri, 

halda menn 

af honum renni

hræðileg feiti. 

En rauðmagi er besti rétturinn heiti.  

 

Karfinn feitur ber fínan smekk. 

Fáum er spáný keilan þekk. 

Upsinn er alls á milli. 

Þorskurinn, sem í þaranum þrífst, 

þrefaldur út úr roðinu rífst. 

Frá ég hann margan fylli. 

Þorskinn, roskinn, 

rifinn, harðan, 

rétt óbarðan 

ráð er besta 

að bleyta í sýru á borð fyrir presta.

Lok veturnátta

Björn Baldursson

mánudagurinn 28. október 2013

Í gærkvöldi lauk dagskrá veturnátta. Henni lauk með ballettsýningu í Turnhúsinu þar sem þær Salóme Katrín Magnúsdóttir og Sigrún Lísa Torfadóttir, eða dansdúettinn "Spegilmynd" sýndi dansatriði og að loknum  dansinum var kertafleyting í fjörunni. Nokkur fjöldi fólks var á svæðinu og lét fólk kuldann ekki á sig fá, en nokkuð kalt var í veðri og snjókoma.

Skilma

Björn Baldursson

föstudagurinn 4. október 2013

Skilmur
Skilmur

Áhald það sem er á myndinni hér til hliðar nefnist skilma, tréfiskur með blýi á endanum og var notuð við landnótaveiðar á síld. Þá gengu síldartorfurnar oft mjög nálægt landi. Nótin var þá  fest í annan endann í landi og farið með hinn endann á bát og kastað fyrir torfuna og tekinn bugur um síldartorfuna og farið í land með djúpendann. Þá var síldin komin í svokallaðan "lás", blýteinninn í nótinni lá við botninn og korkteinninn á yfirborðinu og komst því síldin ekki út. Skilman gegndi því hlutverki tálbeitu til að halda síldinni inni í nótinni meðan verið var að draga hana að landi, var henni þá kastað fyrir síldina og síðan dregin að landi, og elti þá síldin skilmuna. Í lásnum var síldin oft geymd í marga daga og var tekið úr lásnum smátt og smátt með svokallaðri "úrkastnót". Smásíldin var aðallega notuð í beitu. 

Upp