Saga safnsins

Um safnið

Fyrstu hugmyndir um sjóminja- og byggðasafn fyrir Vestfirði setti Bárður G. Tómasson, skipaverkfræðingur, fram í blaðagrein sem hann ritaði í blaðið Vesturland í desember 1939. Grein sína nefndi hann „Sexæringar”. Þar bar hann fram þau tilmæli til Ísfirðinga að þeir sameinuðust um að láta byggja sexæring með gömlu lagi og öllum fargögnum. Hugmynd Bárðar var að sexæringurinn yrði fyrsti vísir að héraðs- og sjóminjasafni byggðarlagsins. Hvatti hann menn til að styðja þetta mál með fjárframlögum. Hugmyndin fékk allgóðar undirtektir og var Jóhann Bjarnason, bátasmiður á Ísafirði og fyrrum formaður í Bolungavík, ráðinn til að smíða sexæringinn. Var hann tilbúinn sumarið 1941 og hlaut nafnið Ölver.

Þann 23. júlí 1941 var Byggða- og sjóminjasafn Ísfirðinga stofnað og var Bárður G. Tómasson kosinn fyrsti formaður þess. Á fundinum afhenti hann safninu sexæringinn til eignar og lagði fram greinargerð um kostnað við byggingu hans og fjáröflun. Með byggingu sexæringsins má segja að lagður hafi verið grunnur að sjóminjadeild byggðasafnsins, sem opnað var í Turnhúsinu í Neðstakaupstað á sjómannadaginn 1988. Þegar verbúðin í Ósvör í Bolungarvík var byggð upp var sexæringurinn, ásamt fjölmörgum munum tengdum árabátaútvegi, fluttur þangað og er nú varðveittur þar.

Sögufélag Ísfirðinga var stofnað árið 1953 og var eitt af markmiðum þess að efla vöxt og viðgang byggðasafnsins, en starfsemi þess lagðist að miklu leyti niður eftir 1946 þar sem forystumenn þess voru ýmist fluttir eða á förum til annarra byggðarlaga. Árið 1953 setti stjórn Sögufélagsins fram hugmynd um að endurvekja og færa út starfsemi safnsins. Í lögum um viðhald fornra mannvirkja og byggðasöfn frá 1947 voru ákvæði þess efnis, að byggðasöfn skyldu eiga rétt á styrk úr ríkissjóði til stofnunar og reksturs ef hérað eða héruð ákvæðu að koma upp safni, enda væru á þeim slóðum varðveittar fornar byggingar, sem hæfar væru taldar til slíkrar safngeymslu að dómi þjóðminjavarðar. Bæjarstjórn Ísafjarðar og sýslunefndir Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslna ákváðu að gerast sameiginlega eignar- og rekstraraðilar safnsins. Var því gefið nafnið Byggðasafn Vestfjarða að ósk Vestfirðingafélagsins í Reykjavík. Í ársbyrjun 1975 gerðist Bolungarvíkurkaupstaður svo aðili að safninu. Fyrsti formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða var kjörinn Jóhann Gunnar Ólafsson, sýslumaður og bæjarfógeti.

Saga safnsins birtist í ritinu Byggðasöfn á Íslandi sem gefið var út af rannsóknarsetri í safnafræðum við Háskóla Íslands 2015 sem hægt er að nálgast hér.

Upp