Fréttir og tilkynningar

Verðlaunagripur fyrir flatningu

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 14. ágúst 2013

Fánastöngin.
Fánastöngin.
1 af 2

15-30 desember árið 1923 fór fram kappmót í flatningu á Ísafirði. Þessi kappmót fóru fram reglulega, en að þessu sinni bar sigur úr býtum Baldvin Sigurðsson. Verðlaunagripurinn var fánastöng úr látúni, mikill kostagripur, smíðuð af Helga Jóhannesi Sigurgeirssyni gullsmið hér á Ísafirði og var hún metin á 300 kr á þeim tíma. Nú um daginn afhentu systurnar Erla, Guðrún og Þuríður Magnúsdætur, barnabörn Baldvins safninu þessa fánastöng og mun hún sóma sér vel þar innan um aðra gripi. Baldvin Sigurðsson fórst með Gissuri hvíta í október árið 1929.

Hermóður sjósettur

Björn Baldursson

föstudagurinn 2. ágúst 2013

Verið að hífa Hermóð á flot.
Verið að hífa Hermóð á flot.

Í morgun var Hermóður ÍS 482 sjósettur. Hermóður var smíðaður af Fali Jakobssyni í Bolungarvík og sonum hans Jakobi og Sigmundi árið 1928. Með milligöngu Einars Guðfinnssonar keypti Hermann Hermannsson á Svalbarði í Ögurvík bátinn árið 1930. Hermann gerði hann út þaðan til ársins 1945 og eftir það frá Ísafirði til 1956. Það ár seldi hann bátinn Gunnari og Magnúsi Jóhannessonum á Skarði í Skötufirði. Undanfarin ár hefur Hermóður verið í eigu bræðranna frá Svalbarði í Ögurvík , og á síðastliðnu ári afhentu þeir bræður Byggðasafni Vestfjarða bátinn. Í vor var Hermóður saumaður upp af Magnúsi Alfreðssyni trésmið á Ísafirði.

Saltfiskveisla safnsins 2013

Jón Sigurpálsson

mánudagurinn 15. júlí 2013

Nú líður að Saltfiskveislu Byggðasafns Vestfjarða þann 20. júlí. Veislan verður í Turnhúsinu eins og á síðasta ári. Rýmra er um gestina og allir sitja undir sama þaki og gæða sér á hinum ýmsu saltfiskréttum sem Magnús Hauksson og starfsfólk hans í Tjöruhúsinu matreiða.

Að venju hljóma ljúfir tónar undir borðhaldinu. Að þessu sinni er það Bacalaoband Valda Mósa sem spilar, bæði við borðhaldið og fyrir dansi á eftir. Bandið skipa Valdimar Olgeirsson á bassa, Kristinn Gauti Einarsson á trommur, Tómas Jónsson á píanó og Birgir Olgeirsson með gítar og söng. Veislan hefst klukkan sjö þegar húsið opnar og stendur yfir fram eftir kvöldi. Miðaverði er stillt í hóf og er aðeins kr. 6.500,.

„Við munum leika dægurlög og fleira skemmtilegt frá hinum ýmsu heimshornum. Ég hef bæði unnið á Byggðasafni Vestfjarða sem almennur starfsmaður og einnig sem gestur í salfiskveislum liðinna ára svo nú verð ég í mínu þriðja hlutverki þarna“, segir Valdimar Olgeirsson. Sami hljómsveitarkjarni hefur fylgt veislunni í tíu ár, það er hin fábæra Saltfisksveit Villa Valla sem fær frí að þessu sinni.

Saltfiskveislan hefur verið haldin frá 2002 og því er hún í ellefta skipti í ár. Árið 2002 voru liðin 150 ár frá því Ásgeirsverslun var stofnuð á Ísafirði en höfuðstöðvar hennar voru lengst af í Neðstakaupstað. Verslunin var á sínum tíma umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi og því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins á þennan hátt.

Miðapantanir í síma, 4563299 eða 8963291 

Upp