Fréttir og tilkynningar

Norsk harmonika

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 21. ágúst 2013

Ásgeir tekur við harmonikunni af Egil Öknes. Ljósm:Sigurður Harðarson
Ásgeir tekur við harmonikunni af Egil Öknes. Ljósm:Sigurður Harðarson
1 af 2

Um verslunarmannahelgina var haldin harmonikuhátíðin "Nú er lag" á Varmalandi í Borgarfirði. Það var Félag harmonikuunnenda í Reykjavík sem hafði veg og vanda af hátíðinni að þessu sinni og var fjölbreytt dagskrá í boði. Hátíðin stóð yfir frá föstudegi til sunnudags og var mikið um að vera, tónleikar, sýningar og dansleikir. Aðsóknin á hátíðina er alltaf að aukast ár frá ári. Meðal gesta á hátíðinni voru Egil Öknes frá Noregi, og fyrir hönd Brönnöysund Trekkspillklubb færði hann Harmonikusafni Ásgeirs S.Sigurðssonar gamla hnappaharmoniku með norsku gripi. Harmonikan er í góðu ásigkomulagi og vel spilhæf. Ásgeir S. Sigurðsson var á staðnum og veitti harmonikunni viðtöku.

 

 

Forynjur í Neðsta

Björn Baldursson

þriðjudagurinn 20. ágúst 2013

Ófreskjur á ferð í Turnhúsinu. Ljósm: Bj. B.
Ófreskjur á ferð í Turnhúsinu. Ljósm: Bj. B.

Um daginn voru forynjur ýmis konar á ferð í Neðstakaupstað. Að sjálfsögðu litu þær við í Byggðasafninu.

Kjörgripur frá Ásmundarstöðum bætist í harmonikusafnið

Björn Baldursson

mánudagurinn 19. ágúst 2013

Nú á dögunum bættist mikill kjörgripur við safnkost Harmonikusafns Ásgeirs S.Sigurðssonar. Það voru hjónin Sigurður Mar Óskarsson og Guðný Hólmgeirsdóttir sem komu færandi hendi og færðu safninu sjálfspilandi konsertínu. Þetta hljóðfæri er líklega frá því um 1920 og er þannig uppbyggt að í því er pappírsrúlla með götum sem hefur að geyma lagið sem spila á, en svo þarf að draga hana sundur og saman til að trekkja spilverkið eins og venjulega konsertínu til að lagið spilist. Nokrar aukarúllur fylgdu hljóðfærinu sem er í góðu lagi. Hljóðfærið kemur frá Ásmundarstöðum á Melrakkasléttu, heimaslóðum Sigurðar. Talið er líklegt að hljóðfærið hafi komið með erlendum sjómönnum.

Hér má sjá spilað á samskonar hljóðfæri http://www.youtube.com/watch?v=CJUrUIZm2rM

 

Harmonikusafnið er í stöðugum vexti og telur nú rúmlega 190 harmonikur, og Ásgeir er hvergi nærri hættur að safna. Í sumar kom til hans kona frá Kaliforníu og eftir að hafa skoðað safnið sagðist hún vilja ánafna safninu harmoniku mannsins síns og lofaði að senda Ásgeiri hana í haust.

Upp