Fréttir og tilkynningar

Fágæt vatnskanna úr postulíni

Jón Sigurpálsson

föstudagurinn 1. febrúar 2013

1 af 2

Safninu áskotnaðist fágæt vatnskanna úr postulíni frá ofanverðri 19. öld. Hún er með gyllingu og skreytt handlitaðri teikningu af Gramversluninni á Þingeyri.

Kannan er frá Carl Tielsch verksmiðjunni í Þýskalandi. Hún er um 25 cm á hæð og mesta þvermál um 17 cm. Á botni könnunnar er merki verksmiðjunnar, nokkuð dauft, en vel má greina örn og upphafsstafina C og T undir erninum. Líklegt er að kannan sé framleidd á tímabilinu 1870-1900. Kannan er algjörlega heil, hvergi sprungin, kvarnað úr henni eða gallar á glerungi. Lok fylgir og á handfangi er myndarlegt ljón. Kannan er skreytt með gylltu munstri og í borða undir handlitaðri húsateiknigunni stendur Dyrefjord öðru megin og Iceland hinu megin. Gyllingin hefur látið á sjá en er samt býsna greinileg.Fremst á könnunni er handlituð mynd af Gramversluninni á Þingeyri, Dýrafirði. Friðrik Wendel var verslunarstjóri á staðnum á árunum 1870-1900. Hann var þýskur og kann að hafa látið gera könnuna. Bróðir hans, Hermann Wendel, var ljósmyndari og var um tíma á Þingeyri. Ekki er ólíklegt að hann hafi tekið mynd af húsunum og ljósmyndin notuð sem fyrirmynd handa teiknaranum.

Eljan frá Nesi

Jón Sigurpálsson

föstudagurinn 1. febrúar 2013

Eljan frá Nesi er smíðuð í Grunnavík árið 1942. Það voru bræðurnir frá Nesi /Naustum, Magnús og Sigurður Elíassynir sem smíðuðu bátinn og áttu hann lengst af. Hann er smíðaður úr eik og furu og í honum er 27 kw. Thornycroft díselvel. Stefán Símonarson frændi Nesbræðra eignaðist bátinn eftir þeirra dag ásamt Vilberg Prebenssyni. Guðjón Brjánsson og Dýrfinna Torfadóttir eignuðust síðar bátinn og gáfu hann til Byggðsafnsins haustið 2012.

Samnorræn ráðstefna

föstudagurinn 17. ágúst 2012

Samráðsfundur norrænna sjóminjasafna verður haldinn 22. - 24. ágúst. Aukin samvinna á milli norrænna safna á sviði sjó- og strandminja á sviði sýninga, rannsókna og annarra starfa safnanna. Fundarstjóri: Pétur Kristjánsson

Meira

Upp