Fréttir og tilkynningar

Saltfiskveisla safnsins 2013

Jón Sigurpálsson

mánudagurinn 15. júlí 2013

Nú líður að Saltfiskveislu Byggðasafns Vestfjarða þann 20. júlí. Veislan verður í Turnhúsinu eins og á síðasta ári. Rýmra er um gestina og allir sitja undir sama þaki og gæða sér á hinum ýmsu saltfiskréttum sem Magnús Hauksson og starfsfólk hans í Tjöruhúsinu matreiða.

Að venju hljóma ljúfir tónar undir borðhaldinu. Að þessu sinni er það Bacalaoband Valda Mósa sem spilar, bæði við borðhaldið og fyrir dansi á eftir. Bandið skipa Valdimar Olgeirsson á bassa, Kristinn Gauti Einarsson á trommur, Tómas Jónsson á píanó og Birgir Olgeirsson með gítar og söng. Veislan hefst klukkan sjö þegar húsið opnar og stendur yfir fram eftir kvöldi. Miðaverði er stillt í hóf og er aðeins kr. 6.500,.

„Við munum leika dægurlög og fleira skemmtilegt frá hinum ýmsu heimshornum. Ég hef bæði unnið á Byggðasafni Vestfjarða sem almennur starfsmaður og einnig sem gestur í salfiskveislum liðinna ára svo nú verð ég í mínu þriðja hlutverki þarna“, segir Valdimar Olgeirsson. Sami hljómsveitarkjarni hefur fylgt veislunni í tíu ár, það er hin fábæra Saltfisksveit Villa Valla sem fær frí að þessu sinni.

Saltfiskveislan hefur verið haldin frá 2002 og því er hún í ellefta skipti í ár. Árið 2002 voru liðin 150 ár frá því Ásgeirsverslun var stofnuð á Ísafirði en höfuðstöðvar hennar voru lengst af í Neðstakaupstað. Verslunin var á sínum tíma umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi og því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins á þennan hátt.

Miðapantanir í síma, 4563299 eða 8963291 

Fágæt vatnskanna úr postulíni

Jón Sigurpálsson

föstudagurinn 1. febrúar 2013

1 af 2

Safninu áskotnaðist fágæt vatnskanna úr postulíni frá ofanverðri 19. öld. Hún er með gyllingu og skreytt handlitaðri teikningu af Gramversluninni á Þingeyri.

Kannan er frá Carl Tielsch verksmiðjunni í Þýskalandi. Hún er um 25 cm á hæð og mesta þvermál um 17 cm. Á botni könnunnar er merki verksmiðjunnar, nokkuð dauft, en vel má greina örn og upphafsstafina C og T undir erninum. Líklegt er að kannan sé framleidd á tímabilinu 1870-1900. Kannan er algjörlega heil, hvergi sprungin, kvarnað úr henni eða gallar á glerungi. Lok fylgir og á handfangi er myndarlegt ljón. Kannan er skreytt með gylltu munstri og í borða undir handlitaðri húsateiknigunni stendur Dyrefjord öðru megin og Iceland hinu megin. Gyllingin hefur látið á sjá en er samt býsna greinileg.Fremst á könnunni er handlituð mynd af Gramversluninni á Þingeyri, Dýrafirði. Friðrik Wendel var verslunarstjóri á staðnum á árunum 1870-1900. Hann var þýskur og kann að hafa látið gera könnuna. Bróðir hans, Hermann Wendel, var ljósmyndari og var um tíma á Þingeyri. Ekki er ólíklegt að hann hafi tekið mynd af húsunum og ljósmyndin notuð sem fyrirmynd handa teiknaranum.

Eljan frá Nesi

Jón Sigurpálsson

föstudagurinn 1. febrúar 2013

Eljan frá Nesi er smíðuð í Grunnavík árið 1942. Það voru bræðurnir frá Nesi /Naustum, Magnús og Sigurður Elíassynir sem smíðuðu bátinn og áttu hann lengst af. Hann er smíðaður úr eik og furu og í honum er 27 kw. Thornycroft díselvel. Stefán Símonarson frændi Nesbræðra eignaðist bátinn eftir þeirra dag ásamt Vilberg Prebenssyni. Guðjón Brjánsson og Dýrfinna Torfadóttir eignuðust síðar bátinn og gáfu hann til Byggðsafnsins haustið 2012.

Upp