Fréttir og tilkynningar

Ásgeir S. Sigurðsson kvaddur

Jón Sigurpálsson

mánudagurinn 29. apríl 2019

Hjónin Messíana Marsellíusardóttir og Ásgeir S. Sigurðsson við afhendingu harmonikusafnsins til Byggðasafns Vestfjarða 8. maí 2008.
Hjónin Messíana Marsellíusardóttir og Ásgeir S. Sigurðsson við afhendingu harmonikusafnsins til Byggðasafns Vestfjarða 8. maí 2008.

Laugardaginn 27. apríl fór útför Ásgeirs S. Sigurðssonar fram frá Ísafjarðarkirkju. Byggðasafn Vestfjarða kveður kæran félaga og velgjörðarmann með eftirfarandi kveðjuorðum fyrrverandi forstöðumanns safnsins.

Hjá mér var það hluti af daglegum störfum mínum að koma við í sölubúð Marselíusar Bernharðssonar í Neðsta þar sem tengdasonurinn Ásgeir S. Sigurðsson var við stjórnvölinn. Í daglegri umgengni var hann kenndur við konu sína Messíönu Marsellíusardóttur og kallaður Geiri Mess. Í minningunni var verslunin næst því að vera isenkræmmer uppá dönsku. Ekki aðeins var verslunin í betra lagi heldur hélt kaupmaðurinn uppi stemningu sem maður sótti í. Allt á sinn tíma og verslunin lokaði og Geiri Mess hvarf til annarra starfa en á sameiginlegri leið okkar um lífsins veg áttum við svo eftir að mætast margoft í áranna rás og var það alltaf auðgandi og maður kvaddi hann ævinlega ríkari.

Árið 2008 ákváðu þau hjón að gefa Byggðasafni Vestfjarða harmonikusafn sitt í heild sinni sem þá voru um 140. Árið 1990 hóf Ásgeir markvisst að safna harmonikum af ýmsum stærðum og gerðum. Frá upphafi var markmið þeirra að gefa góða innsýn í sögu og þróun harmonikunnar og fjölbreytileika hennar ásamt því að miðla til fólks sögu hljóðfærisins á Íslandi. Í dag er þessi höfðinglega gjöf eitt af djásnum safnsins og er þar sérsafn sem ber hans nafn.

Margir gullmolar harmonikunnar leynast í safninu, fornar og nýjar. Í anda sagnamannsins var kappkostað að segja sögu hvers hljóðfæris þar sem því var komið við. „Oft er sagan ekki síðri en hljóðfærið“ hafði hann að orði. Ásgeir var einstakur hagleiksmaður og margar harmonikur fékk hann í frumeindum sínum og gerði þær upp og smíðaði það sem upp á vantaði.

Safnið hefur vaxið jafnt og þétt og var Geiri vakinn og sofinn yfir velferð þess. Eftir að veikindi Ásgeirs ágerðust varð viðvera hans stopulli á safninu til að segja sögur og sinna viðgerðum, sem vakti óskipta athygli gesta.  Nærvera hans var einstök og fór hver maður, ég tala nú ekki um konur ríkari frá honum.

Ég votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð og þakka fyrir allar þær ógleymanlegu stundir sem ég hef átt í leik og starfi með einlægum vini.

Jón Sigurpálsson

Gleðilegt sumar

Jón Sigurpálsson

miðvikudagurinn 24. apríl 2019

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu, fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu, hinir eru skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður og haustmánuður. Veturinn er liðinn með gormánuði, ýli, mörsugur, þorra, góu og einmánuði.

Eftir dimma skammdegisdaga kviknar líf með farfuglum og hækkandi sól. Gestir fara að streyma að safninu með stígvaxandi þunga. Annir eru mestar í safninu um sólmánuð. Séra Björn Halldórsson garðyrkjufrumkvöðull í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli um sólmánuð, að hann væri sá tími er sól gengur um krabbamerki. Hann byrjar á sólstöðum og fyrst í honum fara menn á grasafjall. Um það leyti safna menn þeim jurtum sem til lækninga eru ætlaðar og lömb gelda menn nálægt Jónsmessu er færa frá viku seinna. Engi, sem maður vill tvíslá, sé nú slegið í 10. viku sumars. Vilji maður uppræta skóg skal það nú gjörast; þá vex hann ei aftur. Nú er hvannskurður bestur síðast í þessum mánuði.

Margt bendir til þess að farþegafjöldi um borð í þeim skemmtiferðaskipum sem ætla að heimsækja Ísafjörð nálgast 120 þúsund þá eru aðrir gestir ótaldir. Þá er ekkert annað en að vona að mánuðurinn standi undir nafni sínu.

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna - hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.

Gleðilegt sumar.

Er alþýðumenning þjóðararfur?

Jón Sigurpálsson

mánudagurinn 8. október 2018

Byggðasafn Vestfjarða býður til málþings í Edinborgarhúsinu
2. nóvember 2018
kl. 9:00 - 16:00

Slóð: https://jakinn.tv/2018/11/er-althydumenning-thjodararfur/


Titill málþingsins vísar til spurninga um, hvort þjóðvitundin sé hönnuð með það að markmiði að passa við hugmyndir erlendra ferðamanna um íslenska alþýðumenningu.
Byggðasafn Vestfjarða upplifir skeytingaleysi gagnvart atvinnutækjum sjávarútvegsins, sem er þó það afl sem lagði gruninn að því velferðarsamfélagi sem Ísland er í dag.

Svo virðist sem yfirvöld hafi bógstaflega tekið meðvitaða ákvörðun um að viðhalda ekki atvinnutækjum sjómanna með breytingu safnalaga og tilfærslu færslna í styrkjakerfinu. Endurgerð báta heyrir nú undir Fornleyfasjóð Minjastofnunar. Þannig eru fyrrum atvinnutæki hversdagsins, s.s. bátar af öllum gerðum nú í samkeppni við fornleifauppgreftri í allri sinni dýrð. Undir þessum kringumstæðum verður hin hversdagslega alþýðumenning alltaf hornreka. Með óbreyttri minjastefnu er söfnum gert ókleift að sinna hlutverki sínu innan ramma laganna.
Önnur minjasöfn hafa einnig fundið fyrir breytingum sem tilkoma vaxandi ferðaþjónusta hefur í för með sér, þar sem sýningar á vegum einkaaðila eru styrktar á sama tíma og sýningar minjasafna eru lagðar niður. Hér á ég að sjálfsögðu við sýningarými Byggðasafns Skagafjarðar, sem látið var víkja fyrir sýningu á vegum einkaaðila. Fréttabladid.is greinir frá þessu þann 10. mars 2018, svona „Ónefndir fjárfestar hyggjast setja á fót á Sauðárkróki sýndarveruleikasafn byggt á Sturlungu og Örlygsstaðabardaga. Mjög spennandi segir formaður byggðaráðs en fulltrúi minnihlutans gagnrýnir leyndarhjúp yfir kostnaði sveitarfélagsins.“ Eða með öðrum orðum, sýningu Byggðasafnsins er lokað, fjármunirnir settir til að styrkja einkaframtak sem byggir á óskhyggju ferðafrömuða um íslendinga og „sannan“ þjóðararf íslenskrar þjóðar.
Er menning almúgafólks púkaleg? Verða yfirvöld bæjar/sveitastjórna sem og ríkisstjórna að fá einkaaðila til að sýna gestum betri mynd af okkur sjálfum?
Málþing Byggðasafns Vestfjarða spyr því, er alþýðumenning þjóðararfur? Hver er leiðin fram á við?

09:00 - 10:00  Erik Småland Varðveisla á bátum í Noregi.
10:00 - 10:30  Ágúst Ó. Georgsson Varðveisla á eldri bátum á Íslandi.
10:30 - 10:45  Kaffi
10:45 - 11:15  Jón Sigurpálsson og Björn Erlingsson Björgunarskútan María Júlía, táknmynd skeytingaleysis.
11:15 - 11:45  Jón Jónsson Hvað er alþýðumenning? Er hún þjóðararfur?
12:00 - 13:00  Hádegishlé
13:00 - 13:30  Einar Kárason „Án skipa væru engir Íslendingar“.
13:30 - 14:00  Guðrún Jónsdóttir Samspil ferðamennsku og framsetningar á íslenskum menningararfi / alþýðumenningu.
14:00 - 14:30  Áki Karlsson Samtaka í þágu menningararfsins.
14:30 - 14:45  Kaffi
14:45 - 15:15  Sigurjón Baldur Hafsteinsson Hver er leiðin fram á við?
15:15 - 16:00  Samantekt, umræður og helstu niðurstöður.
17:30 - 19:00  Munir og mynd. Opnun sýningar í Turnhúsinu. Hönnuður: Jón Sigurpálsson.
19:00 - 00:00  Kvöldverður í Tjöruhúsinu.

Erik Småland er aðalsérfræðingur Þjóðminjasafns Noregs í haf- og strand- og iðnaðarminjum.
Ágúst Ó. Georgsson er sérfræðingur þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands.
Jón Sigurpálsson er myndlistarmaður og fyrrverandi forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða.
Björn Erlingsson er hafeðlisfræðingur og áhugamaður um haf- og strandminjar.
Jón Jónsson er þjóðfræðingur og verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum
Einar Kárason er rithöfundur.
Guðrún Jónsdóttir er forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar
Áki Guðni Karlsson er þjóðfræðingur og höfundur MA-ritgerðar um menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum.
Sigurjón Baldur Hafsteinsson er prófessor í félags- og mannvísindadeild við Háskóla Íslands.
Fundarstjóri Helga Þórsdóttir er menningarfræðingur og starfandi forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða.

Upp