Fréttir og tilkynningar

Nýtt kynningarrit 15 bátar og einn slippur

Helga Þórsdóttir

miðvikudagurinn 11. október 2017

Byggðasafn Vestfjarða á 15 skráða báta. Af þeim eru 12 súðbyrðingar og allir forngripir nema tveir. Nú er svo komið að sjö bátar af 15 eru varðveittir á sjó. Aðrir eru í ferli yfirhalningar og eru þar mislangt komnir. Að auki fóstrar Byggðasafn Vestfjarða tvo merka súðbyrðinga í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Það eru Þór frá Keldu við Mjóafjörð í Djúpi, um hann er fátt vitað og Ögra úr Ögurvíkinni, sexæringur, smíðaður um 1880-1890 af Kristjáni Kristjánssyni bónda og skipasmið í Þúfum í Reykjafjarðarhreppi.

Meira

Um Karítas Skarphéðinsdóttur

Helga Þórsdóttir

fimmtudagurinn 2. febrúar 2017

Að mestu er stuðst við grein Karítasar Skarphéðinsdóttur Neff sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 2010. En einnig fengum við nokkrar staðreyndir og viðbætur frá Gunnari Frímannssyni.

Karítas Skarphéðinsdóttir fæddist í Æðey við Ísafjarðadjúp þann 20 janúar árið 1890. Hún var dóttir hjónanna Petrínu Ásgeirsdóttur frá Látrum í Mjóafirði og Skarphéðins Elíasarsonar frá Garðstöðum í Ögursveit. Petrína móðirin lést úr lungabólgu nokkrum mánuðum eftir fæðingu hennar. Faðir Karítasar er skráður manntalinu 1890 sem tómthúsmaður á Laugabóli sem lifði af fiskveiðum. Seinna var hann bóndi í Efstadal með örfáar ær. En miklu lengur fékkst hann við sjómennsku, var vinnumaður og verkamaður eftir að hann flutti í þéttbýlið.

Meira

Ég var aldrei barn, ný grunnsýning hjá Byggðasafni Vestfjarða.

Helga Þórsdóttir

fimmtudagurinn 2. febrúar 2017

Byggðasafn Vestfjarða hefur ákveðið að setja upp nýja grunnsýningu fyrir sumarið 2017. Að þessu sinni er ætlunin að skoða betur fiskverkunina í landi.

Sýningunni er ætlað að útskýra hvernig staðurinn, norðanverðir Vestfirðir, mótast og mótar manneskjur. Hvernig er, veðurfar, jarðfræðin, vistkerfið, að búa á Ísafirði, hvað gerir fólk, hvernig skapast verðmæti og verðmætamat heimamanna?

Við höfum ákveðið að fjalla um líf og störf Karítasar Skarphéðinsdóttur (1890 – 1972). Þannig má líta á hana sem leiðsögumann sýningarinnar. Karítas var áberandi kona sem markaði spor í samtímann, þar að leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi. Barnabarn hennar Karítas Skarphéðinsdóttir Neff skrifaði um nöfnu sína ritgerð sem birtist 1993 í ritinu Lífshættir íslenskra kvenna, Auður Styrkársdóttir ritstýrði. Einnig skrifaði Björgvin Bjarnason grein í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga árið 2015, sem heitir Baráttusaga kommúnista á Ísafirði 1930 – 1935 þar kemur fram hverjir tóku þátt í verkalýðsbaráttunni á þessum tíma.

Meira

Upp