Fréttir og tilkynningar

Vélsmiðjan á Þingeyri

Jóna Símonía Bjarnadóttir

fimmtudagurinn 29. júní 2023

Því miður hefur ekki tekist að ráða starfsmann í Vélsmiðju GJS á Þingeyri þetta sumarið en við ætlum að reyna að hafa opið a.m.k. fimmtudaga og föstudaga kl. 10-14 og eitthvað um helgar, það verður auglýst nánar. Eins og er getum við ekki tekið við kortum á staðnum.

Vonandi rætist úr þannig að við getum haft opið miðvikudaga til sunnudaga það sem eftir lifir sumars. 

Opnun 2023

Finney Rakel Árnadóttir

þriðjudagurinn 2. maí 2023

Senn líður að því að safnið fari úr vetrardvala og opni formlega yfir árið 2023. Það er margt í bígerð og er von á fjölda farþega með skemmtiferðaskipum hingað til Ísafjarðar þar sem margir munu eflaust leggja leið sína á safnið. Það hefur verið hagur svæðisins í Neðsta að hafa Upplýsingamiðstöðina og safnið á sama stað og það haft góð samþætt áhrif. Þann 16. maí verður opnað formlega kl. 10:00, það verður hefðbundin opnunartími til 17:00 daglega til 31. ágúst en frá 1. september til 15. sama mánaðar verður opið 11:00-15:00.

Gleðilegt ár - Árið 2022 hjá Byggðasafni Vestfjarða

Finney Rakel Árnadóttir

föstudagurinn 13. janúar 2023

Heil og sæl og gleðilegt ár. Árið 2022 er liðið og má segja að starfsemi Byggðasafnsins hafi gengið nokkuð vel fyrir sig á árinu. Tiltektir héldu áfram í varðveislu húsnæðum safnsins en oft var þó ekki fyrr búið að taka til  en að svæðið hefur fyllst aftur af gripum, munum og minjum stórum sem smáum sem að hafa komið úr tímabundnum aðstöðum til varðveislu muna sem nú hafa verið tæmd. 

Mikil aukning var á heimsóknum á safnið í ár og má telja um að 12000 manns hafi heimsótt Turnhúsið á liðnu ári. Þar munar um komu skemmtiferðaskipa og hópa á þeirra vegum og er sú starfsemi að hefjast á ný eftir heimsfaraldur. Sumarstarfsmenn í hluta og fullu starfi þetta sumarið voru þrír og voru þeir tveir í hefðbundum safnvörslu störfum og við yfirsetu. Að auki í vor naut safnið starfskrafta aðila í starfsendurhæfingu hjá VIRK sem var kærkomið. Var dagskráin frekar þétt þegar  tók að líða á sumarið og  aukning á skipakomum varð að veruleika. Turnhúsið var vel sótt af gestum skemmtiferðaskipa sem komu í skipulagaðar heimsóknir. Það bættist í fjölda heimsóknargesta úr gönguhópum sem taka að segja má öðruvísi snúning á eyrina og eru þær heimsóknir vel heppnaðar og velkomin viðbót við þá flóru sem fyrir er. Einnig var tekið á móti hópum frá Háskólasetrinu, íslensku nemum og loks skólahópar frá grunn- og leikskólum Ísafjarðarbæjar en þess má geta að allir árgangar nema einn á vegum Grunnskóla Ísafjarðar komu í heimsókn á safnið í aðdraganda jóla. Jólasýningin var á sínum stað og hlaut mikla aðsókn aðra og þriðju helgi í aðventu, einn laugardaginn þegar mest var fóru um 17 lítrar af súkkulaði úr húsi. Verður það að teljast nokkuð gott. Við uppsetningu jólasýningar fékk safnið sjónvarpsþáttinn Landann í heimsókn þar sem forstöðumaðurinn Jóna Símonía og sérfræðingur safnsins Finney Rakel ræddu við Gísla um jólahefðir og jólaskraut og safnið í Neðsta. Sjónvarpsþáttinn má sjá undir dagskrá ruv.is og var hann sýndur á fyrsta sunnudegi aðventu. 

Sýningar sem settar voru upp á árinu eru á meðal annars - Verur á vappi, gagnvirk sýninging á vegum Freyju Rein og síðar 170 ára saga skipstjórnarnáms samstarfsverkefni Menntaskólans á Ísafirði, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Háskólaseturs Vestfjarða og Byggðasafnsins að auki var sett upp sýning í Turnhúsinu sem var partur af Umhverfingu myndlistarsýningu en þar setti Rósa Sigrún Jónsdóttir upp sýninguna Til Hornstranda þar sem um var að ræða rýmisverk í nokkrum hlutum. Kristján Andri Guðjónsson afhenti fyrir hönd systkina safn sjókorta sem voru í eigu föður hans Guðjóns Arnars Kristjánssonar og var sett upp sýning af því tilefni sem gaf til kynna hvernig sjókortamælingar fóru fram fyrir tíma Lóran tækja. Haft var samband við safnið vegna kvikmyndatöku verkefnis sem mun eiga sér stað hér á Ísafirði árið 2023 en mun safnið verða til aðstoðar hvað varðar leikmuni og slíkt. Þau eru fjölbreytt og skemmtileg verkefnin sem safnið fær í hendur og á mismunandi vettvangi.

Ný stjórn Byggðasafnsins tók við eftir kosningar og kom Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri fyrir hönd Ísafjarðar ný inn í stjórn en áfram sitja Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri fyrir Bolungarvík og Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri fyrir Súðavíkurhrepp. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar þá fékkst ekki starfskraftur á Þingeyri til að sinna yfirsetu í Vélsmiðjunni á Þingeyri það er vona að það verði breyting á komandi ári. Forstöðumaður safnsins sat alþjóðlega ráðstefnu ICOM í Prag þar sem ný safna skilgreining var samþykkt og starfsmenn fóru á Farskóla safna og safnmanna sem haldinn var á Hallormsstað nú í ár. 

Forvörður kom og aðstoðaði við enn frekari skipulag, frágang og tiltekt sem mikil þörf er á. Er þetta þriðjasumarið sem að ráðist er í átaksverkefni yfir sumar. Voru færri hendur við tiltekt nú í ár en í fyrra en settur var fókus á að færa þá muni sem voru staðsettir í smiðjuhúsi yfir í varðveislu húsnæði til betri varðveislu skilyrða. Stór átak var í kjölfarið gert á geymslumálum í smiðjuhúsi og horfir til betri vegar en Smiðjan er í húsnæði sem þarfnast töluverða endurbóta ef því er ætlað að varðveita gripi til lengri tíma. Efri og neðri hæðin voru skipulagðar og fer brátt að líða að því að þær verði full klárar eftir mikla endurskipulagsvinnu.

Herbert Snorrason var einn af starfsmönnum safnsins í ár og fór í það verkefni að skoða og bera saman skráningar safnsins. Bjó hann til forrit til aðstoðar sem má kalla hálfgert innra kerfi á skráningu á munum safnsins. Þessi vinna er og verður mikil búbót fyrir það skráningarátak sem framundan er hjá safninu sem helst í hendur við þær breytingar og endurröðun á fyrstu og annarri hæð varðveislu húsnæðis.

Eftir að sumar opnunartímanum lauk var safnið þó nokkuð vel sótt þann tíma sem það hafði opið skemur frá 1.-15. september eða frá 11-15, eftir sumarlokun bar einnig á því að fólk spurðist fyrir um safnið í Upplýsingamiðstöðinni og var þá hægur leikur að opna fyrir áhugasama. Það má segja að með komu upplýsingamiðstöðvarinnar í húsið hafi opnað meira fyrir þann möguleika að hafa safnið opið lengur þar sem sýnileiki þess er meira áberandi en áður og gott fyrir heildarmynd svæðisins. Að öðru þá má nefna að afhendingar til safnsins í ár voru töluverðar. Vesturafl hafði samband ef til þeirra komu munir sem áttu erindi á safnið og er þeim færðar kærar þakkir fyrir. Þar ber helst að nefna, leikföng og almenna heimilismuni tengda við þjóðlíf síðustu aldar. Jólasýningin 2021 vakti eftirtekt og varð það til þess að í aðdraganda jóla 2022 komu margir með jólaskraut sem var í eigu skyldmenna frá fyrri hluta 20. aldar það sannarlega bætir upp heildarmynd jóla sýningarinnar og þakkar starfsfólk safnsins einnig þeim velunnurum sem hafa fært því muni til varðveislu. 

Annars horfir vel til ársins 2023 þar sem vonandi næst heildarmynd á varðveislu húsnæðið þar sem það verður fullklárað og tilbúið til skráningar. Er það stór áfangi ef vel mun takast. Það stefnir í breytingar á grunnsýningu í Turnhúsi og verða kynningamál og textagerð einnig í fyrirrúmi og safnbúðin í stöðugri vinnslu það horfir einnig björtum augum til sumarsins þar sem von er á auknum ferðamannastraumi þar sem safnið og umhverfið hlýtur vonandi góðs af.  

Upp