Fréttir og tilkynningar

Forynjur í Neðsta

Björn Baldursson

þriðjudagurinn 20. ágúst 2013

Ófreskjur á ferð í Turnhúsinu. Ljósm: Bj. B.
Ófreskjur á ferð í Turnhúsinu. Ljósm: Bj. B.

Um daginn voru forynjur ýmis konar á ferð í Neðstakaupstað. Að sjálfsögðu litu þær við í Byggðasafninu.

Kjörgripur frá Ásmundarstöðum bætist í harmonikusafnið

Björn Baldursson

mánudagurinn 19. ágúst 2013

Nú á dögunum bættist mikill kjörgripur við safnkost Harmonikusafns Ásgeirs S.Sigurðssonar. Það voru hjónin Sigurður Mar Óskarsson og Guðný Hólmgeirsdóttir sem komu færandi hendi og færðu safninu sjálfspilandi konsertínu. Þetta hljóðfæri er líklega frá því um 1920 og er þannig uppbyggt að í því er pappírsrúlla með götum sem hefur að geyma lagið sem spila á, en svo þarf að draga hana sundur og saman til að trekkja spilverkið eins og venjulega konsertínu til að lagið spilist. Nokrar aukarúllur fylgdu hljóðfærinu sem er í góðu lagi. Hljóðfærið kemur frá Ásmundarstöðum á Melrakkasléttu, heimaslóðum Sigurðar. Talið er líklegt að hljóðfærið hafi komið með erlendum sjómönnum.

Hér má sjá spilað á samskonar hljóðfæri http://www.youtube.com/watch?v=CJUrUIZm2rM

 

Harmonikusafnið er í stöðugum vexti og telur nú rúmlega 190 harmonikur, og Ásgeir er hvergi nærri hættur að safna. Í sumar kom til hans kona frá Kaliforníu og eftir að hafa skoðað safnið sagðist hún vilja ánafna safninu harmoniku mannsins síns og lofaði að senda Ásgeiri hana í haust.

Verðlaunagripur fyrir flatningu

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 14. ágúst 2013

Fánastöngin.
Fánastöngin.
1 af 2

15-30 desember árið 1923 fór fram kappmót í flatningu á Ísafirði. Þessi kappmót fóru fram reglulega, en að þessu sinni bar sigur úr býtum Baldvin Sigurðsson. Verðlaunagripurinn var fánastöng úr látúni, mikill kostagripur, smíðuð af Helga Jóhannesi Sigurgeirssyni gullsmið hér á Ísafirði og var hún metin á 300 kr á þeim tíma. Nú um daginn afhentu systurnar Erla, Guðrún og Þuríður Magnúsdætur, barnabörn Baldvins safninu þessa fánastöng og mun hún sóma sér vel þar innan um aðra gripi. Baldvin Sigurðsson fórst með Gissuri hvíta í október árið 1929.

Upp