Fréttir og tilkynningar

FRAM slúttar vertíðinni í ár

Björn Baldursson

mánudagurinn 16. september 2013

1 af 4

Í morgun kom skemmtiferðaskipið FRAM til Ísafjarðar. Það er síðasta skip sumarsins og tók Ísafjörður á móti farþegunum með hryssingskulda og vindstrekkingi. Um 170 manns komu til okkar í dag á þessum síðasta formlega opnunardegi sumarsins. Alls hafa þá komið á safnið í sumar um 12000 manns og viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna.

Gullkistan við enda regnbogans

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 11. september 2013

Það var fallegur regnboginn sem blasti við undirrituðum í morgun, rigningarúði, sólskin á köflum og suðvestan sperringur. Hann myndaði fallega hvelfingu yfir Neðstakaupstað og samkvæmt þjóðsögunni á að vera falin gullkista við enda hans. Svo var sannarlega í þessu tilviki þar sem hann sveigðist fallega niður í Ísafjarðardjúpið.

Samkvæmt norrænni goðafræði þá er rauði liturinn í regnboganum eldur sem brennur á Ásbrú, brúnni sem goðin byggðu milli Miðgarðs og Ásgarðs og varnar eldurinn því að hrímþursar og bergþursar gangi upp brúna.

 

 

Síðasta skip hjá Byggðasafninu

Björn Baldursson

miðvikudagurinn 4. september 2013

Caribbian Princess.
Caribbian Princess.
1 af 8

Í morgun kom til Ísafjarðar skemmtiferðaskipið Caribbian Princess, sem er 112.000 tonna skip og hefur það  3600 farþega innanborðs. Um 500 farþegar eru bókaðir í ferðir í Byggðasafnið og kom fyrsta rúta kl 7:30 í morgun, og að auki hefur verið nokkur lausatraffík. Eggert Nielsen og hópur krakka frá Súðavík syngur fyrir hópana og svo fá gestirnir líka að smakka harðfisk, hákarl og brennivín. Fólk kann misjafnlega vel að meta þær trakteringar en er þó óhrætt við að smakka.  Veðrið leikur við farþegana og lofa þeir Ísafjörð og fólkið þar í hástert.

Upp