Hefur þú einhvern tíman þurft að sleppa frá tröllum? Og veistu hvernig er hægt að þekkja álfa? Ef ekki, þá er best að þú komir með börnin þín í Turnhúsið í Neðsta þann 25. Október kl 13. Þar verður skemmtileg fjölskyldustund þar sem Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur mun segja allskonar skrítnar og skemmtilegar sögur, og mögulega svolítið hræðilegar líka. Sögurnar fjalla um vættirnar okkar á Íslandi, álfana, tröllin og drauga og þau sem hafa farið á Náttúrubarnahátíð á Ströndum ættu að kannast við sögustundirnar hjá Dagrúnu sem hafa vakið mikla lukku.
Dagrún verður í Neðstakaupstað þennan dag í tilefni af Veturnóttum og þegar sögustundinni fyrir börnin lýkur, eða kl 15, mun hún kynna bók sína sem kom út núna í sumar. Bókin heitir Ghosts, Trolls and the Hidden People, og fjallar um íslenskar þjóðsögur og sagnir í nýju samhengi. Bókinni er skipt upp í kafla eftir því hvar sagnirnar eiga sér stað; á bóndabænum, í óbyggðunum, kirkjunni, myrkrinu, fjörunni eða á hafi úti. Dagrún segir frá því hvernig þessi ólíku rými hafa áhrif á sagnirnar og hvaða yfirnáttúrulegu verur og vættir tilheyra hverjum stað, en við sögu koma meðal annars álfar, draugar og tröll, en einnig illhveli og ísbirnir. Kynningin fer fram á íslensku og bókin verður til sölu á staðnum.
Öll eru velkomin og léttar veitingar verða í boði Byggðasafns Vestfjarða