Fréttir og tilkynningar

Júlífréttir úr Neðsta

Finney Rakel Árnadóttir

fimmtudagurinn 16. júlí 2020

Jón Ásgeir og málverkið af Ver ÍS 120
Jón Ásgeir og málverkið af Ver ÍS 120
1 af 2

Það hefur margt á daganna drifið hér á safninu. Aðsókn hefur verið með besta móti miðað við svartsýnustu spár eftir COVID faraldurinn sem gekk yfir. Landsmenn hafa verið duglegir að kíkja við á safninu og er það ánægjulegt sem og traffíkin hér fyrir vestan.

Hér á safninu höldum við áfram að tengjast umheiminum í gegnum samfélagsmiðla en safnið er komið á miðlilinn Instagram - https://www.instagram.com/nedstimuseum/  og vonumst til að #nedstimuseum færi okkur skemmtileg myndræn augnablik frá heimsóknum gesta. 

Úr flýttri auka úthlutun úr safnasjóði árið 2020 til eflingar á faglegu starfi safna hlaut Byggðasafn Vestfjarða styrk að upphæð 1.200.000 til skráningar, varðveislu og fræðslu gripa í Turnhúsi. Þetta er kærkomin búbót í það starf sem fer hér fram og styrkir það til muna. 

Afhendingar á munum og minjum hvaðanæva af Vestfjörðum hafa verið þónokkrar og færum við því fólki bestu þakkir. Saumavélar, koffort, forláta berjatínur, föt, flöskur svo eitthvað sé nefnt. Eitt af því sem barst til safnsins ásamt góðri heimsókn var málverk af vélbátnum Ver ÍS 120. Báturinn var smíðaður á Akranesi árið 1929. Sumarið 1949 var báturinn seldur vestur á Ísafjörð, kaupandinn Bergmann Þormóðsson. Báturinn var í útgerð í um 45 ár, og allan þann tíma áttu sér stað aðeins ein eigendaskipti. Hann hét Ver allan tímann en bar einkennisstafina MB, AK og ÍS. Jón Ásgeir Jónsson afhenti safninu málverkið af VER ÍS 120 til varðveislu en Jón Ásgeir og systkini hans gáfu málverkið á sínum tíma til minningar um Jón Egilsson, föður sinn, skipstjóra og Bergmann Þormóðsson.

Heimildir: Íslensk skip, skipamyndir.com

Ljósmyndir: Snævar Sölvi og Pálmi Jóhannesson 

 

Júnífréttir úr Neðsta

Finney Rakel Árnadóttir

mánudagurinn 15. júní 2020

Júní mánuður hefur farið rólega í gang hér í Neðstakaupstað. Sumarstarfsfólkið, þau Heiðrún, Snævar og Tryggvi hafa tekið til hendinni á ýmsum vígstöðum, frágangur, breytingar og tiltekt svo eitthvað sé nefnt. 

Við hliðina á Smiðjunni hér í Neðsta hefur verið sett upp beitingaaðstaða sem sýnir hvernig hvernig handverknaður við beitingu hefur breyst í tímans rás - einhverskonar tímalína. Það er aldrei að vita að í sumar verði einhver á svæðinu og sýni handbrögðin. 

Einhver starfsemi verður í smiðjunni hér í Neðsta. Fólki er velkomið að hafa samband og forvitnast um aðstöðuna þar. 

Við Hafnarstræti 8 hefur verið unnið að því að setja upp smásýningu þar sem harmonikur úr safni Ásgeirs S. Sigurðssonar verða til sýnis. það er safninu bæði ljúft og skilt að heiðra minningu þeirra hjóna, Ásgeirs og Messíönu Marzellíusardóttur sem kvaddi þessa jarðvist á þessu ári. Í bland við fágæt eintök, má finna þar elstu harmonikuna í safninu og harmonikur sem eiga sér áhugaverðar sögur. Harmonikur sem enda á ruslahaugum og er "bjargað", nikkur sem hafa verið skildar eftir og aldrei vitjað bæði úr viðgerð og líkt í einu tilfelli ein sem gleymdist á skólaferðalagi. Tekið verður úr lás nú í dag, mánudaginn 15. júní og formleg opnun auglýst innan tíðar.

Breytingar á opnunartíma verða óhjákvæmilegar í kjölfar Covid tíma og breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Opnunartíminn verður 10:00 (í stað 9:00)-17:00 , þangað til annað verður ákveðið og verkefnin breytist í áttina við það sem þekkist frá sumarstarfsemi safnsins. Harmonikusýning og Smiðjan á Þingeyri eru opnar 13:00 - 17:00 

Bestu kveðjur úr Neðsta

Smiðjan á Þingeyri opnar í dag

Finney Rakel Árnadóttir

þriðjudagurinn 2. júní 2020

Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri

 

Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar er elsta starfandi vélsmiðja landsins. Smiðjan sem er nánast í sinni upprunalegu mynd og ber nafn Guðmundar J. Sigurðssonar sem stofnaði smiðjuna til helminga með Br. Proppé.

Gramsverslun hætti starfsemi árið 1898 við fráfall Níels C. Gram. Við versluninni tók annað félag, Grams Handel, sem var dótturfélag í eigu P.Thorsteinsson á Bíldudal. Árið 1908 komst verslunin í eigu Milljónafélagsins sem varð svo gjaldþrota 1914 og loks árið 1913 í eigu Br. Proppé.

Grams Handel rak smiðju undir stjórn Bjarna Guðbrandar sem var lærifaðir Guðmundar J. Sigurðssonar sem smiðjan er kennd við í dag. Bjarni Guðbrandur stuðlaði  að utanför Guðmundar til Danmerkur og Noregs til frekara náms og er meðmælabréf dagssett 25.jan. 1906 því til staðfestingar. Eftir heimkomu Guðmundar árið 1908 vinnur hann hjá Grams Handel, á árunum fram til 1913. Grams Handel hefur líklega hafið fyrsta áfanga við smíði núverandi smiðjuhúss árið 1912 því full vinna hefst í nýrri smiðju í janúar 1913. Styrkur Grams Handel til náms Guðmundar var með því fororði að hann ynni hjá þeim í einhvern tíma eftir að hann lyki námi. Vélsmiðjan varð fljótt þekkt fyrir vandaða og góða þjónustu. Á stríðsárunum þegar erfitt var að útvega varahluti voru steyptir þar varahlutir af öllum stærðum og gerðum, í erlend sem innlend skip. Einnig var smiðjan skóli í málmiðnum og þar var eftirsóknarvert að læra sökum þess hve fjölbreyttur smiðjureksturinn var. Þar lærðu menn  logsuðu, rafsuðu, rennismíði, járnsmíði í eldsmiðju, málmsteypu og flest annað sem gert er í smiðju. Guðmundur J. Sigurðsson eignast smiðjuna að fullu árið 1927.

Smiðjan var í rekstri til ársins 1995 og er raunar enn unnið eftir atvikum við allskyns vélsmíðavinnu og málmsteypu.

Byggðasafn Vestfjarða fékk smiðjuna afhenta til varðveislu í byrjun árs 2014.

Smiðjan er opin virka daga kl. 13-17 frá 1.júní - 31. ágúst 202

Upp