Alma Sóley Önnudóttir Wolf hefur hafið störf í Vélsmiðju GJS á Þingeyri sem verður opin helgina 22.-24.8 og 27.8.-31.8. frá kl 10-14 alla dagana.
Við hvetjum kennara og skólahópa til að nýta tækifærið en ókeypis er fyrir nemendur á safnið.
Ef þessir tímar henta ekki hafið samband á byggdasafn@isafjordur.is
Vélsmiðjan er sú elsta starfandi á landsinu og nánast í sinni upprunalegu mynd. Full vinna hófst þar í janúar 1913 og vélsmiðjan varð fljótt þekkt fyrir vandaða og góða þjónustu. Á stríðsárunum þegar erfitt var að útvega varahluti voru steyptir þar varahlutir af öllum stærðum og gerðum, í erlend sem innlend skip. Einnig var smiðjan skóli í málmiðnum og þar var eftirsóknarvert að læra sökum þess hve fjölbreyttur smiðjureksturinn var. Þar lærðu menn logsuðu, rafsuðu, rennismíði, járnsmíði í eldsmiðju, málmsteypu og flest annað sem gert er í smiðju. Guðmundur J. Sigurðsson eignast smiðjuna að fullu árið 1927.
Smiðjan var í rekstri til ársins 1995 og er raunar enn unnið eftir atvikum við allskyns vélsmíðavinnu og málmsteypu.