Nú líður óðum að jólaopnun á Byggðasafni Vestfjarða en forskot var tekið á sæluna þann 22. nóvember þegar safnvörðurinn okkar hún Alma opnaði Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri. Þar var boðið upp á heita og kalda drykki og smákökur, ásamt því að úrval úr jólabúðinni var til sölu og vel var tekið í viðburðinn af heimafólki.
Eins og alþjóð veit þá eru jólasveinarnir hvorki einn eða átta og alls ekki bara þrettán talsins og þess vegna ætla feðginin Dagrún Jónsdóttir og Jón Jónsson að koma í Turnhúsið föstudaginn 28. nóvember og segja áhugasömum frá gömlu íslensku jólafólunum eins og þau kalla fyrirlesturinn. Þar rifja þau upp næstum því gleymdar sögur, til dæmis þekkja flestir gamlar og ljótar sögur um Grýlu sem var hryllileg mannæta og jólasveinana sem forðum voru til vandræða hvar sem þeir komu. Sumir í fjölskyldunni eru samt að mestu gleymdir eins og fyrri eiginmenn Grýlu og jólasveinar eins og Lungnaskvettir, Flórsleikir eða Flotnös.
Sagt verður frá óhugnanlegum sögum og þjóðtrú um Grýlu og hennar hyski. Sumt af því hentar varla mjög ungum börnum eða viðkvæmum sálum en öll sem þora eru hjartanlega velkomin!
Þau feðgin gáfu einnig út bók um efnið núna fyrir jólin sem ber yfirskriftina Gömlu íslensku jólafólin: fróðleikur og ljótar sögur, og verða með hana með sér. Viðburðurinn er í boði Dress up games.
Í Neðstakaupstað er sú nýjung að árlega jólasýningin og Jólabúðin verða í Krambúðinni en safnið tók nýlega við vörslu hússins. Í Krambúðinni verður hægt að kaupa dýrindis varning og heitt súkkulaði helgarnar 13.-14. desember og 20.-21. desember, en auk þess verður opið fimmtudaginn 18. desember og jólabúðin verður opin frá 10-12 á Þorláksmessu. Ef fólk þyrstir sárlega í jólamuni utan þessa opnunartíma þá er alltaf hægt að finna starfsmann í Jónshúsi á morgnana og biðja um að fá að kíkja í Jólabúðina.
Skólahópar eru velkomnir á aðventunni eins og alltaf og kennarar eru beðnir um að panta fyrir hópana á byggdasafn@isafjordur.is
Það koma varla jól án þess að hlustað sé á huggulega jólatóna og í ár ætla Drumbar að syngja okkur inn í jólin með tvennum tónleikum í Turnhúsinu. Tónleikarnir verða þann 13. desember kl 14 og 16 og hægt verður að ylja sér við kaffi og kökur á meðan hlustað er á þá.