Á þessu ári eru 10 ár frá því að fyrsta saltfiskveislan var haldin. Að þessu sinni verður veislan í Turnhúsinu, safnhúsinu sjálfu þann 28. júlí. Blásið var til fyrstu veislunnar árið 2002 í tilefni af því að 150 ár voru liðin frá stofnun Ásgeirsverslunar.  Verslunin átti höfuðstöðvar sínar lengst af í Neðstakaupstað á athafnareit safnsins og var á sínum tíma umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi, af þessu tilefni þótti því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins með góðri veislu. 

Boðið var upp á hlaðborð saltfiskrétta, sem flestir voru ættaðir frá helstu markaðslöndum Ásgeirsverslunar í Suður Evrópu.  Hráefnið í réttina var sólþurrkaður saltfiskur sem breiddur hafði verið út og þurrkaður á fiskreit safnsins framan við Turnhúsið.  Leitað var til valinkunnra saltfiskunnenda og þeir fengnir til að koma með sinn uppáhalds- eða áhugaverðasta rétt.  Safnmenn lögðu sitt  af mörkunum í matargerðinni og báru á borð rammíslenska soðningu með þverskornum bitum og vestfirsku mörfloti.  Húsfyllir var þetta kvöld og gott betur og þurfti að stækka húsplássið með því að tjalda stóru samkomutjaldi framan við Tjöruhúsið.  Það var ljóst að hér yrði ekki staðar numið og hafa veislurnar verið árviss viðburður síðan.

Saltfisksveit Villa Valla og söngkonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir hefur frá upphafi yljað gestum með viðeigandi tónlist. Saltfisksveitina skipa héraðsmúsíkkantinn Vilberg Vilbergsson sem þenur belg nikkunnar og kallast á við söng Jóhönnu V. Þórhallsdóttur, sem er á heimavelli og sjarmerar gesti með nærveru sinni.  Hrynsveitina skipa Páll Torfi Önundarson á gítar og Tómas R. Einarsson sem leikur á kontrabassa og slagverk allskonar og trommur ber svo Matthías MD Hemstock.