Skonnortan
Skonnortan
1 af 4

Í Byggðasafninu eru haglega gerð líkön af kútter og skonnortu. Þessi líkön eru gerð af Hálfdáni Bjarnasyni smið á Ísafirði f.17. ágúst 1885, d.17. desember 1965, og voru þau smíðuð sérstaklega fyrir Byggðasafnið. Fyrirmynd skonnortunnar er Haffrúin, sem gerð var út frá Flateyri, og fyrirmynd kúttersins er kútterinn Haganes, en Hálfdán var á honum um skeið. Hálfdán smíðaði síðar einnig líkön fyrir Þjóðminjasafnið en þau voru töluvert stærri.

 

Í Vesturlandi, þann 24 desember 1964 birtist eftirfarandi viðtal við Hálfdán.

 

Vesturland 24.12.1964.

Viðtal við Hálfdán Bjarnason smið.

 

-Hann er kominn til að skoða skúturnar, segir sonarsonurinn, þegar gamall kvikur maður lýkur upp dyrunum á húsi við Seljalandsveg á Ísafirði á dimmu vetrarkvöldi. Innan stundar erum við komnir upp á Engjaveg á verkstæði gamla mannsins, Hálfdáns Bjarnasonar smiðs, og við augum blasa líkön af tveimur skútum, forkunnar fallegir gripir og listavel smíðaðir. Bæði eru skipin undir fullum seglum og möstrin ber við loft. -Þessi stærri er skonnorta, 2,38 m. á lengd og er tvímöstruð með fullum seglabúnaði, rá og reiða, segir gamli maðurinn. -Ég hygg að þetta muni vera danskt lag, en fyrirmyndin er skonnortan Haffrúin frá Flateyri, sem mun hafa verið 35 tonn. Þessi gerð af skonnortum var algeng hér á Vestfjörðum um og eftir aldamótin og ég man eftir Lovísu héðan frá Ísafirði og Fortunu frá Þingeyri. Á þessum skonnortum voru 15-16 menn á skaki. -Skonnortan er tvímöstruð og stórseglið er á aftara mastri og það segl hefur gaffaltopp. Svo er á hinu mastrinu skonnortssegl, og segl er á stagi á milli mastra, það heitir millumstagssegl. Svo eru fjögur forsegl. Næst mastrinu er fokka, miðseglið er stagsegl, þá klýfur og fremsta seglið heitir jagari. Hálfdán smiður bendir á alla þessa hluti á líkaninu, sem er alveg nákvæm eftirlíking af gömlu skonnortunni, og hann nefnir nöfn, sem heyra fortíðinni til og láta framandlega í eyrum okkar, sem yngri erum. Hann bendir á eitt og annað á skipinu: vanta, veglínur, jómfrúr, bommu, gaffal, kló, pikk, riftalínu, skaut, krufuspil, stuðtalíu og enn fleiri nöfn, sem ekki verða upp talin hér. - Þetta er nákvæmt líkan, en þó allt tekið upp úr huganum. Allir hlutir á þessu líkani, stórir og smáir, eru eins og á gömlu skonnortunum. Í lest eru saltkassar í báðum hliðum og 16 kojur eru í lúkar. Allur skrokkurinn er úr eik og pikkspón og lúkar er innréttaður úr eik og káeta úr mahóní, en hún er aðeins fyrir tvo menn. -Já, þetta er allt smíðað eftir minni og ég er alveg öruggur um að þetta hafi allt verið svona, já, þetta var svona hjá okkur hér fyrir vestan. - Kútterinn hérna er 2,20 m. á lengd og það eru akkúrat 60 ár síðan ég var á kútternum, sem þetta módel er af, en hann hét Haganes. Hálfdán Bjarnason smiður er 79 ára að aldri og ber aldurinn vel. Að vísu er heyrnin nokkuð tekin að bila, en sjónin er góð og höndin styrk. Á meðan Árni er að taka myndirnar, getur gamli maðurinn ekki verið iðjulaus, hann grípur eikarspýtu og hnífinn og tálgar og tálgar.  -Ég fór til Reykjavíkur árið 1906 til að læra smíðar og ég hefi verið húsasmiður, mublusmiður og skipasmiður síðan, skipasmiður í 30 ár. - Ég byrjaði til sjós árið 1898 og var á sjónum til 1905. Ég byrjaði á gömlu  ljótu skipi, sem hét Ægir frá Bíldudal og var með kúttersretningu, og eitt sumar var ég á kútternum Haganesi, sem þetta líkan er smíðað eftir. -Fyrir um 10 árum var ég beðinn að smíða líkön fyrir Byggðasafnið hér á Ísafirði af skonnortu og kútter. Þetta eru eintrjánungar, um metri á lengd. En þessi líkön, sem eru miklu stærri, gat ég ekki lagt í fyrr en ég var hættur að vinna fyrir um 2 ½  ári. -Ég er búinn að vera nákvæmlega 12 mánuði með skonnortuna. Jú, þetta er ó- hemju mikil vinna. Seglin á hvorri skútunni eru sex vikna vinna. Ég var 7 mánuði að vinna við skrokkinn á skonnortunni, en 5 mánuði með reiðann, hann er svona mikil vinna. -Ég hefi eiginlega alltaf unnið fullan vinnudag við þetta og stundum upp í 14-16 tíma, þegar ég hef verið að vinna hér heima á rúminu við ýmsa smáhluti. -Annars hefi ég ekkert getað unnið við þetta í haust, ég ætlaði að hafa jullur á þeim, en ég veit ekki hvort ég endist til að klára það, ég hefi verið svo slappur í haust. Hvernig stóð á því að þú lagðir út í þetta verk? -Ástæðan fyrir því, að skúturnar eru orðnar til er sú, að eftir að ég hafði smíðað þessi líkön fyrir Byggðasafnið, fór ég suður og kom á Þjóðminjasafnið. Ég var viss um að þetta hlyti að vera til betra fyrir sunnan. Mér brá í brún þegar ég kom í Þjóðminjasafnið og sá það, sem þeir kalla kútter þar. Það er hreinasta forsmán, það skip er bæði ljótt, illa smíðað og ekkert rétt við það, það er ekkert í líkingu við það, sem það á að vera og gefur alls ekki rétta hugmynd af þessum skipum. Gamli maðurinn hefur talað í sig hita og það er auðheyrt, að þetta er hans hjartans mál. -En ég sá þar líka tvö listaverk, módel af Gauksstaðaskipinu og áttæringi með sunnlenzku lagi, hann er alveg listavel smíðaður. -Að ég kom í Þjóðminjasafnið varð mér hvatning til að smíða þessi skip, án þeirrar heimsóknar hefðu þau ekki orðið til, því að mér hafði ekki til hugar komið, að einhver hefði ekki verið búinn að smíða svona skip áður. -Ég vildi að til væru líkön af þessum skipum, þar sem allt er sýnt rétt, og ég þori að ábyrgjast, að á mínum líkönum er allt rétt sýnt, þó úr huganum sé. Skipin voru okkur strákunum það sama og þeim eru bílarnir núna og okkur þótti vænt um þessi skip. Allri þjóðinni þótti vænt um þessi skip, enda voru þau fyrsti vísir allra framkvæmda. Ég skal lofa þér að heyra vísur, sem ég hefi ort. Gamli maðurinn hallar sér aftur í sætinu, augun sindra á meðan hann flytur kvæðið og svipurinn verður glaðlegur. Hann rær sér og hrynjandi ljóðsins fylgir handasláttur. Minningarnar um liðna tið, um skútuöldina, taka hann föstum tökum og hugurinn leitar aftur um borð í gamla kútterinn.

 

Földum skautar fagra gnoðin

fyrsti vísir þess, sem er

 fyrsti Íslands frelsisboðinn

farmanns hreysti vitni ber.

 

 Vonir bjartar, hugur heitur

horfði af nýjum sjónarhól,

þegar þessar fögru fleytur

fyrst hér greiddu ský frá sól.

 

Þegar byljir byrgja strendur

brotna stengur, rifnar voð,

skipstjórinn við stýrið stendur

stundum sólarhringa tvo.

 

Brotsjóar um borðin renndu

þar boðar risu straumanna,

en hjartað trútt og hraustar hendur

héldu um stýristaumana.

 

Og hvað verður nú um þessi líkön þín, Hálfdán? — Það veit ég ekki. Sjálfur hefi ég helzt hug á því, að koma þeim á Þjóðminjasafnið, svo framarlega sem ekki verður stofnað Sjóminjasafn. Ég vil að skipin verði varðveitt, það er mín heitasta ósk.

Björn Baldursson