Þessa dagana erum við að þurrka saltfisk á reitinum við Turnhúsið þegar þurrt er í veðri. Á 19. öld varð saltfiskur aðal útflutningsafurð Íslendinga. Hann varð fljótlega undirstaða atvinnulífs á Ísafirði og langverðmætasta söluvara Ísafjarðarkaupmanna á erlendum mörkuðum allt fram yfir 1940, þegar freðfiskur leysti hann af hólmi. Vöxtur og viðgangur Ísafjarðar byggðist öðru fremur upp á verkun og útflutningi saltfisks og voru stór landsvæði á eyrinni lögð undir fiskreiti á sumrin á ofanverðri 19. öld og öndverðri þeirri 20.
Yfir sumarið sóttu karlmenn aflann á haf út en konur börn og gamalmenni verkuðu hann í landi. Þegar búið var að landa fiskinum tóku vöskunarkonurnar við honum, snyrtu og hreinsuðu burtu hnakkablóð og himnudrógu. Síðan var fiskurinn þveginn vandlega með stráburstum. Loks var hann skolaður áður en hann var fluttur á reitana til söltunar.
Á reitunum tóku saltararnir við fiskinum, hlóðu honum upp í stæður og söltuðu. Þannig var hann geymdur í u.þ.b. 2 vikur uns breiðslan hófst, en hún fór fram á sólríkum eða þurrum dögum. Þá var fiskurinn borinn út á reitana og hann breiddur á grjót eða lágar trégrindur. Á kvöldin var honum aftur hlaðið í stakk og segldúkur breiddur yfir til varnar gegn rigningu.
Þegar líða tók á sumarið var farið að huga að endanlegum frágangi saltfisksins til útflutnings. Byrjað var á að kanna hversu þurr hann var orðinn. Ef fiskinum var haldið móti sólu með annarri hendi og greina mátti fingur hinnar handarinnar í gegnum hnakkann taldist hann fullþurr. Eins ef hann hélst beinn þegar tekið var í sporðinn og honum haldið láréttum. Að þurrkun lokinni var fiskurinn fluttur í hús og honum staflað eftir stærðum í málfisk, millifisk og smáfisk síðan var honum skipað út í kaupskipin sem fluttu hann á erlenda markaði. Spánverjar og Portúgalir voru helstu kaupendurnir, en Spánarmarkaður lokaðist þegar borgarastíðið braust út þar í landi árið 1936. Varð það verulegt áfall fyrir fiskvinnsluna í landinu en þess var þó ekki langt að bíða að ný aðferð, hraðfrystingin, ryddi sér til rúms og yrði aðal vinnsluaðferð fisks á Íslandi.