Á sunnudaginn þann 8 júlí n.k. er íslenski safnadagurinn. Í tilefni dagsins er frítt inn á safnið. Boðið verður upp á léttan ratleik um safnið fyrir yngstu kynslóðina og þau geta valið uppáhaldssafngripinn sinn. Töluverð breyting hefur verið gerð á sýningunni sem verið hefur undanfarin ár og er nú sýningin Stefnumót tveggja tíma allsráðandi á jarðhæð safnsins, þar sem gerð er grein fyrir þróun útgerðar frá þilskipum til skuttogara. Á annari hæð Turnhússins er Harmonikusafn Ásgeirs S. Sigurðssonar til húsa og hefur það aukið töluvert umsvif sín þar og fleiri nikkur eru nú til sýnis en áður. Vel gæti skeð að góðir gestir grípi í harmonikuna og fylli Turnhúsið töfratónum. Á loftinu er svo sýningin Betri er bjallan bitin en hvönnin slitin, þar sem greint er frá ýmis konar strandhlunnindum og nytjum þeirra áður fyrr.