Ásgeir kaupmaður les í dagblaði á heimili sínu í Danmörku.
Ásgeir kaupmaður les í dagblaði á heimili sínu í Danmörku.
1 af 4

Ásgeir G. Ásgeirsson kaupmaður var mjög stórhuga og framfarasinnaður maður.  Undir hans stjórn varð Ásgeirsverslun að því mikla stórveldi sem raun varð á. Hann var brautryðjandi á mörgum sviðum, hann keypti fyrsta gufuskipið sem Íslendingar eignuðust, Ásgeir litla, og nokkrum árum síðar, eða 1894 kaupir hann fyrsta gufuknúna millilandaskipið sem Íslendingar eignast, 900 brl. skip og nefndi hann það Á.Ásgeirsson eftir föður sínum, en jafnan gekk það undir nafninu Ásgeir stóri. Upphaflega stóð til að hann stofnaði gufuskipafélag til millilandasiglinga ásamt fleiri aðilum, en þeir gengu úr skaftinu þannig að hann keypti skipið einn. Skipið notaði hann m.a. til að sigla með afurðir Ásgeirsverslunar til útlanda og kol og salt o.fl. til Íslands.  Árið 1892 lætur Ásgeir smíða í Danmörku,vél til vöskunar á fiski, mjög líklega þá fyrstu hérlendis. Smiðurinn var skipstjórinn á Ásgeiri litla, og segir  svo orðrétt í blaðinu Ísafold 26 júlí, 1893.:

 

Fiskverkunarvjel

 

„Ásgeir kaupm. Ásgeirsson á Ísafirði hefir í vetur látið búa til í Khöfn þvottavjel fyrir fisk, er hann notar þar á Ísafirði. Vjelin gengur af gufuafli, þvær 60 fiska á minútunni og gerir það allt eins vel og jafnar en hægt er með handafli, að dómi bæði kaupmanna og sjómanna, er skoðað hafa. Við vjelina þarf aðeins 2 menn, til þess að leggja fiskinn í hana og taka við honum aptur þvegnum, auk hins þriðja, er stýrir vjelinni og gætir hennar. Vjel þessa hefir smíðað vjelstjórinn á gufubátnum Ásgeiri  Litla, með öðrum ungum smið, og ætla þeir að fá einkaleyfi  fyrir þeirri hugvitssmíð, er koma mun að beztu notum þeim sem mikinn sjávarútveg hafa“.

 

Vélin var sett upp í „vöskunarhúsinu“ í Neðstakaupstað, og var notuð talsvert mikið, eða allt fram til aldamóta. Vélin var með mörgum burstavölsum með stöðugum straumi af sjó í gegn, fór síðan fiskurinn á færiband og þaðan á vagn sem var á teinum.  Um aldamótin var þó hætt að nota vélina því hún þótti ekki ná að hreinsa nægilega vel undan uggunum á fiskinum. (Jón Grímsson, „Ísafjörður fyrir 60 árum“,  Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 1 árgangur, 1956, bls. 9-39)  

Því miður eru ekki til neinar myndir af þessari örugglega fyrstu fiskvinnsluvél Ísfirðinga.