Hjónin Messíana Marsellíusardóttir og Ásgeir S. Sigurðsson við afhendingu harmonikusafnsins til Byggðasafns Vestfjarða 8. maí 2008.
Hjónin Messíana Marsellíusardóttir og Ásgeir S. Sigurðsson við afhendingu harmonikusafnsins til Byggðasafns Vestfjarða 8. maí 2008.

Laugardaginn 27. apríl fór útför Ásgeirs S. Sigurðssonar fram frá Ísafjarðarkirkju. Byggðasafn Vestfjarða kveður kæran félaga og velgjörðarmann með eftirfarandi kveðjuorðum fyrrverandi forstöðumanns safnsins.

Hjá mér var það hluti af daglegum störfum mínum að koma við í sölubúð Marselíusar Bernharðssonar í Neðsta þar sem tengdasonurinn Ásgeir S. Sigurðsson var við stjórnvölinn. Í daglegri umgengni var hann kenndur við konu sína Messíönu Marsellíusardóttur og kallaður Geiri Mess. Í minningunni var verslunin næst því að vera isenkræmmer uppá dönsku. Ekki aðeins var verslunin í betra lagi heldur hélt kaupmaðurinn uppi stemningu sem maður sótti í. Allt á sinn tíma og verslunin lokaði og Geiri Mess hvarf til annarra starfa en á sameiginlegri leið okkar um lífsins veg áttum við svo eftir að mætast margoft í áranna rás og var það alltaf auðgandi og maður kvaddi hann ævinlega ríkari.

Árið 2008 ákváðu þau hjón að gefa Byggðasafni Vestfjarða harmonikusafn sitt í heild sinni sem þá voru um 140. Árið 1990 hóf Ásgeir markvisst að safna harmonikum af ýmsum stærðum og gerðum. Frá upphafi var markmið þeirra að gefa góða innsýn í sögu og þróun harmonikunnar og fjölbreytileika hennar ásamt því að miðla til fólks sögu hljóðfærisins á Íslandi. Í dag er þessi höfðinglega gjöf eitt af djásnum safnsins og er þar sérsafn sem ber hans nafn.

Margir gullmolar harmonikunnar leynast í safninu, fornar og nýjar. Í anda sagnamannsins var kappkostað að segja sögu hvers hljóðfæris þar sem því var komið við. „Oft er sagan ekki síðri en hljóðfærið“ hafði hann að orði. Ásgeir var einstakur hagleiksmaður og margar harmonikur fékk hann í frumeindum sínum og gerði þær upp og smíðaði það sem upp á vantaði.

Safnið hefur vaxið jafnt og þétt og var Geiri vakinn og sofinn yfir velferð þess. Eftir að veikindi Ásgeirs ágerðust varð viðvera hans stopulli á safninu til að segja sögur og sinna viðgerðum, sem vakti óskipta athygli gesta.  Nærvera hans var einstök og fór hver maður, ég tala nú ekki um konur ríkari frá honum.

Ég votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð og þakka fyrir allar þær ógleymanlegu stundir sem ég hef átt í leik og starfi með einlægum vini.

Jón Sigurpálsson