Sýningar

Árið 2005 / Hárið

1 af 4

Mannshárið hefur í gegnum aldirnar haft ýmiss konar merkingu í hugum fólks. 
Það höfðar til tilfinninganna, er hluti af manneskjunni, hluti sem hægt er að bera með sér í formi hárlokks, þegar viðkomandi er fjarri ástvini sínum eða ástvinurinn látinn.


Að vinna hluti úr mannshári er ævaforn listgrein í Evrópu. Rómverjar hinir fornu unnu listmuni úr mannshári. 
Á miðöldum klipptu enskar konur lokka úr hári sínu, ófu svo úr þeim gjafir sem þær færðu riddurum sínum. Karlar létu einnig hárlokk fylg ja með gjöfum til sinna heittelskuðu.

Sérstakir fagmenn á 19.öld framleiddu myndir unnar úr mannshári. Konur úr efri stéttum þjóðfélagsins lögðu einnig stund á þessu iðju.

Á fyrri hluta 19.aldar fór ung íslensk kona, Guðrún Hjálmarsdóttir frá Ármúla á Langasandsströnd, til Danmerkur og ætlaði sér að nema ljósmóðurfræði. Hún giftist dönskum sjómann, Niels Fredrik Halberg að nafni, og setti að í Danmörku. Guðrún Hjálmarsdóttir Halberg lærði hármunagerð í Danmörku og varð fyrst íslenskra kvenna til vinna hármyndir. 
Karitas Hafliðadóttir frá Fremri-Bakka í Landadal í Nauteyrarhreppi, systurdóttir Guðrúnar, fór til Danmerkur 18 ára gömul til að læra hannyrðir og klæðasaum. Hjá móðursystur sinni komst hún í kynni við hármyndagerð og lærði hjá henni. Karitas sneri heim til Íslands en fór aftur út til Danmerkur, nokkrum árum seinna og þá til að sérhæfa sig í kennslu. Árið 1898 gerðist Karitas barnakennari á Ísafirði og starfaði hún við kennslu allt til ársins 1940. 
Auk þess að fast sjálf við hárlistagerð miðlaði Karitas af þekkingu sinni.

Ragnheiður Hákonardóttir frá Reykhólum var ein þeirra sem lærði hjá Karitas. Bjó Ragnheiður ásamt manni sínum, Salvari Ólafssyni lengst af í Reykjarfirði við Ísafjarðardjúp. Vann hún margar myndir úr mannshári og kenndi öðrum listgreinina.

Sigríður Salvarsdóttir (f.1925) lærði hármyndagerð hjá móður sinni, Ragnheiði Hákonardóttur. Frá því um 1980 hefur Sigríður unnið við hármyndagerð auk þess sem hún hefur gert skartgripi úr mannshári, svo sem nælur og eyrnalokka.

Upp