Sýningar

Árið 2003 / Skíði og skíðafar

1 af 3

Skíðafar

Vetraríþróttir eiga sér langa sögu hér á Ísafirði, einkum þó og sér í lagi skíðaíþróttir. Fyrr á öldum voru skíði gagnleg samgöngutæki að vetri, en hitt var síður þekkt að þau væru notuð til skemmtunar og afþreyingar. Eftir því sem aldirnar liðu virðist hafa dregið úr notkun skíða og kunnáttunni hafa hrakað meðal alls almennings.

Um aldamótin 1900 höfðu norskir hvalveiðimenn  veiðistöðvar allvíða um Vestfirði. Sumir þeirra höfðu þar vetrarvist iðkuðu þá „skíðafar“ sér til skemmtunar og gagns. Margir Vestfirðingar lærðu af þeim kúnstina að fara á skíðum og ekki síður að búa þau til. Á Ísafirði voru þó skautahlaup vinsælli tómstundaiðja á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Þegar Pollinn lagði á vetrum kom fólk saman í hópum og naut útivistar á kyrrum og fögrum vetrarkvöldum og söng jafnvel svo að undir tók í fjöllunum. Engar heimildir eru til sem greina frá keppni í skautahlaupi, heldur var þetta fyrst og fremst útivist og skemmtun.

Dr. Björn og „skíðasóttin“

Það var dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði, yfirkennari við barnaskólann á Ísafirði um aldamótin 1900, sem fyrstur hvatti Ísfirðinga til að leggja stund á skíðaíþróttina sér til ánægju og heilsubótar.  Hafði hann forgöngu um að skólabörn væru send á skíði, en hægar gekk að kynna íþróttina fyrir hinum fullorðnu. Veturinn 1905 - 1906 hóf Emil Strand, kaupmaður, hins vegar að selja innflutt skíði og greip þá um sig mikill áhugi á íþróttinni á bænum. Voru skíðasvæðin einkum tvö, í hlíðinni innan við Grænagarð og í Stórurð, þar sem hægt var að renna sér alla leið niður á ísilagðan Pollinn.

Hinum mikla skíðaáhuga var helst líkt við að sótt hefði lagst á bæjarbúa. Í vikublaðinu Vestra birtist svohljóðandi frétt veturinn 1906:

 

„Skíðaskriðið“

Hver krakkinn sem kominn var yfir 5 ára aldur varð óður og uppvægur að fá sér skíði úr stöfum, úr olíufötum og gömlum skyrsáum. Sagt er að sumir feður hafi jafnvel orðið að taka stafina úr einu kjöttunnunni sem þeir áttu í eigu sinni, til þess að barnið þeirra gæti fylgst með tímanum.

                Ekki hefir þó orðið jafnmikið úr framkvæmdum sem undirbúningnum, sumir hafa farið eina ferð og aðrir ekki komist lengra en að setja upp skíðaskóna. Kvenþjóðin hefir þó orðið einna framkvæmdasömust. Fáar minniháttar konur munu þó enn vera komnar á skíði, en nokkrar „maddömur“, „frúr“ og „frökenar“ hafa „gert stóra lukku“ í bænum.

Árvakur og Einherjar

Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar minnkaði skíðaáhugi mikið, en á þriðja og fjórða áratugnum lá vegur íþróttarinnar á Ísafirði aftur upp á við. Má m.a. þakka það Ungmennafélaginu Árvakri, sem Guðmundur Jónsson frá Mosdal stofnaði árið 1917.  Á árunum 1932 – 1936 gekkst félagið fyrir skíðanámskeiðum og fékk norskan skíðamann, Helge Torvö, til að annast kennsluna. Þá gaf félagið Barnaskóla Ísafjarðar 30 pör af skíðum til að efla áhuga barna á íþróttinni.

 

Skátafélagið Einherjar tók skíðin einnig upp á sína arma og hóf að standa fyrir mótahaldi í bænum. Varð skíðaiðkun einn aðalþátturinn  í vetrarstarfi félagsins. Í fyrstu var einungis keppt í göngu og stökki, en árið 1938 efndu Einherjar til svigkeppni í Stórurð til að kynna greinina fyrir Ísfirðingum. Var þess ekki langt að bíða að bæjarfélagið eignaðist frækna kappa á því sviði. Margir af fremstu skíðaköppum þessara ára komu einmitt úr röðum þeirra Einherja, þeirra á meðal fyrsti Íslandsmeistari Ísfirðinga, göngukappinn Magnús Kristjánsson.

Skíðafélag Ísafjarðar

Árið 1934 gekkst Ólafur Guðmundsson forstjóri fyrir því að stofnað var Skíðafélag Ísafjarðar. Þetta sama ár var stofnaður skíðaskóli félagsins, þar sem almenningi gafst kostur á að læra kúnstina að skíða. Aðsetur skólans var á Seljalandsdal, en þeir Ólafur og Aðalsteinn Jónsson höfðu kannað aðstæður á Dalnum nokkrum árum áður og komist að því að þar væri afbruðagott skíðaland. Sumarið 1928 reistu þeir fyrsta skíðaskálann þar, en hann brann þremur árum síðar. Var þá strax reistur nýr skáli og hlaut hann nafnið Skíðheimar. Eftir stofnun Skíðafélags Ísafjarðar fékk félagið umráðarétt yfir Seljalandsdal  og gerði hann að miðstöð skíðaíþróttarinnar í bænum.

Fyrstu árin þurfti skíðafólk að fara fótgangandi upp á Seljalandsdal, en á árunum 1938 – 1939 var lagður þangað akvegur. Nýr skáli úr timbri var reistur árið 1939 en gamli skálinn stóð enn um hríð og var notaður áfram  þegar mikið var um að vera á Dalnum. Nýi skálinn stóð allt til ársins 1953, þegar enn var byggt nýtt hús, nú steinsteypt og stendur það enn þann dag í dag.

Árið 1942 tók til starfa nýr skíðaskóli Skíðafélags Ísafjarðar og starfaði hann fram um 1955, lengst af undir stjórn Guðmundar Hallgrímssonar. Auk hefðbundinnar skíðakennslu var nemendum kennt að búa sig til fjallaferða að vetri, meðferð korts og áttavita, hleðsla snjóhúsa að grænlenskum hætti og fyrsta meðferð á kalsárum og beinbrotum.

Skíðavikan

Skíðafélag Ísafjarðar og skátafélagið Einherjar stofnuðu til skíðaviku árið 1935. Vakti hátíðin mikla athygli og kom hópur fólks siglandi með Súðinni frá Reykjavík af þessu tilefni. Greiddi aðkomufólk 10 kr. gjald fyrir þátttökuna, en heimamenn borguðu 5 kr. Vel þótti takast til með þessa fyrstu Skíðaviku og á næstu árum sigldu Súðin, Esjan og Gullfoss með hundruð gesta til Ísafjarðar um hverja páska. Var Gullfoss oft notaður sem fljótandi hótel í Ísafjarðarhöfn á meðan Skíðavikan stóð yfir.

Keppnisfólkið

Skíðafélag Ísafjarðar tók einnig fljótlega að sinna keppnisfólkinu, en árið 1935 stofnaði félagið til Skíðamóts Vestfjarða og Fossavatnshlaupsins. Fossavatnsgangan, eins og mótið heitir nú, er elsta skíðamót sem enn er við lýði hér á landi. Keppni um Grænagarðsbikarinn í svigi fór fyrst fram árið 1946 og hefur verið fastur liður í skíðalífi Ísfirðinga allar götur síðan. Félagið stóð einnig fyrir því að þegar Skíðamót Íslands var haldið í annað sinn, veturinn 1939, fór það fram á Ísafirði.

Öll urðu þessi mót til þess að auka mjög áhuga Ísfirðinga á skíðaíþróttinni og komu flest íþróttafélög bæjarins að þessari grein á einn eða annan hátt. Auk skátafélagsins Einherja og Skíðafélags Ísafjarðar áttu knattspyrnufélögin Vestri og Hörður árum saman keppendur á skíðum og svo var einnig um Málfunda- og íþróttafélagið Ármann í Skutulsfirði. Fyrst í stað sendi hvert félag fyrir sig keppendur á mót utan Ísafjarðar, en eftir að Skíðaráð Ísafjarðar var stofnað í árslok 1944 kepptu allir Ísfirðingar undir merkjum ráðsins utan héraðs. Eftir sem áður keppti hver fyrir sitt félag á innanhéraðsmótum. Í dag keppa hins vegar allir skíðamenn byggðarlagsins undir merkjum Skíðafélags Ísfirðinga.

Ísfirðingar hafa í gegnum tíðina verið afar sigursælir í skíðaíþróttinni. Íslandsmeistaratitlar í flokki fullorðinna eru orðnir á annað hundrað, auk óteljandi titla í flokkum unglinga og öldunga. Þá hafa 18 Ísfirðingar verið fulltrúar Íslands á Vetrarólympíuleikum og hefur Ísafjörður átt fulltrúa á öllum vetrarleikum að frátöldum leikunum í St. Morits 1948,  Sapporo 1972, þegar enginn Íslendingur var sendur til keppni og Salt Lake City 2002.

Dalirnir tveir

Árið 1968 varð bylting í öllum aðbúnaði skíðaáhugafólks þegar tekin var í notkun skíðalyfta á Seljalandsdal. Veturinn 1972 var svo bætt um betur þegar „efri lyftan“ var opnuð, en hún dró skíðamenn upp í eina af bröttustu skíðabrekkum landsins.

Mannvirki skíðasvæðisins á Seljalandsdal skemmdust mikið í snjóflóði árið1994 og var þá farið að huga að nýjum stað fyrir skíðaíþróttina. Fyrir valinu varð Tungudalur, næsti dalur við Seljalandsdal. Þar voru reistar tvær lyftur og skíðaskáli, og ári eftir snjóflóðið var haldið hægt að halda Skíðamót Íslands með miklum glæsibrag á Ísafirði.  Fyrst í stað skíðaði fólk jöfnum höndum á Seljalandsdal og í Tungudal, en undanfarið hefur svigskíðafólk átt sinn samastað í Tungudal, þar sem áfram hefur verið haldið með markvissa uppbyggingu á aðstöðunni.  Skíðagöngufólk nýtur aftur á móti útiverunnar  á Seljalandsdal þar sem boðið er upp á fyrirtaks aðstæður og upplýstar brautir.

Sýningaspjöld:

Upp