Grettir, skip Ásgeirsverslunar.
Grettir, skip Ásgeirsverslunar.

Hákarlaveiðar voru mikið stundaðar á Vestfjörðum hér fyrr á tíð og allt framyfir aldamótin 1900. Fyrst og fremst var það lifrin sem var hirt og brædd. Hákarlalýsi þótti alveg sértaklega gott ljósmeti og var hákarlalýsi ein af aðal útflutningsafurðum Íslendinga lengi vel og lýsti upp stræti og torg erlendra borga. Hákarlaveiðiskipin voru ekki alltaf stór né vel búin og oft hefur aðbúnaður sjómanna verið slæmur, og gilti það einnig um annan veiðiskap. Þessi grein eftir Halldór Kristjánsson sem birtist í jólablaði Ísfirðings í desember árið 1958 gefur okkur smá innsýn í heim hákarlaveiðimannsins, og þá sér maður hvernig aðstæður sjómanna hafa verið á þessum tíma.  

 

Jólablað Ísfirðings, 8.árgangur, 15.12.1958

 

Halldór Kristjánsson

 

Á Gretti gamla fyrir 60 árum.

 

Enda þótt treglega myndi ganga nú að manna skútur á hákarlaveiðar eins og þær gerðust og að þeim var búið fyrir 60-70 árum, kynni vel að vera að einhverjum þætti gaman að rekja feril einnar hákarlaskútu á þeirri tíð í fáeina daga og fylgjast nokkuð með hvernig gekk. Þeir, sem það vilja, geta þá skyggnzt með mér í dagbækur Grettis gamla frá þeim árum.

Dagbækur skipsins eru stuttorðar og segja ekki nema fátt eitt um lífið og starfið um borð. En þær eru samtímaheimild og greina frá ferðum skipsins, veðráttu og aflabrögðum. Og þær eru ómetanleg heimild til samanburðar við munnlegar frásagnir.

Grettir var skonnorta, 26,23 tonn og talinn hið traustasta skip. Þau ár, sem hér er um að ræða var Páll Rósinkransson skipstjóri á honum.

Fyrst skulum við þá rekja einn túr vorið 1897 samkvæmt því einu, sem Páll skipstjóri Rósinkransson hefur skráð í dagbókina. Föstudaginn 16. apríl, kl. 2 að nóttu, er létt á Flateyrarhöfn og siglt út. Vindur er þá suðaustan og austan þegar út kemur. Siglt frá þar til kl. 5 síðdegis. Þá er lagzt á 120 faðma dýpi með Barðann í suðri. Þarna er svo legið næsta dag í þoku og hægviðri og veiðast 34 hákarlar yfir sólarhringinn. Aðfaranótt sunnudags er enn þoka og 15 hákarlar veiðast. Klukkan 7 á sunnudagsmorgunn er veiðum hætt, því að þetta er sjálfur páskadagur. Með morgninum gerir bjartviðri. Klukkan 8 um kvöldið er byrjað að fiska og veiðast 11 hákarlar fyrir lágnætti. Það veiðast 5 hákarlar fyrir kl. 4 um nóttina en þá er létt og siglt í vestur 3 ½ mílu. Þar er lagzt á 90 faðma dýpi með Sléttanes í austurhöllu suðri. Þarna er svo legið allan þriðjudaginn en aflinn er heldur tregur. Aðfaranótt miðvikudags er svo létt og siglt austur. Undir hádegi er lagzt norður af Straumnesi á áttræðu dýpi. Þá er regn og þokuloft og óðum að hvessa vestan. Ekki gefur að renna. Um kvöldið er kominn stormur „búið að stikka út 200 föðmum af pertlínunni. Sami stormur, þungavindur og hvass alla nóttina. Eftir hádegi er létt og siglt austur. Þá gerir hæglætisveður suðvestan og seint um kvöldið er lagzt á hundrað faðma dýpi norður af Hornbjargi. Þarna veiðast 5 hákarlar um nóttina og morguninn en um hádegi er létt og siglt vestur. Þá er lagzt norður af Kögrinum á 150 föðmum. Þar veiðist einn hákarl um nóttina. Kl. 10,30 á laugardagsmorgun, „létt frá ísnum og siglt vestur“. Um kvöldið er lagzt norður af Bjarnarnúp. Þá er þungavindur sunnan og regn. Klukkan 4 um morguninn er létt og siglt vestur. Lagzt eftir hádegið norður af Gelti en létt undir lágnættið og siglt vestur um stund og lagzt svo á 150 föðmum með Barðann í suður. Þar nást svo 12 hákarlar yfir mánudaginn. Um nóttina bregzt veiðin alveg og með morgninum er létt og siglt vestur. Eftir nónið er lagzt norður-norðvestur af Skagahlíðum. Þar fást 24 hákarlar næsta sólarhring, 31 þann næsta og 56 föstudaginn 30. apríl. Veiðin glæddist yfirleitt ef að friður var til að liggja. Menn trúðu því að hákarlinn sækti þar að sem félagar hans voru „skornir niður“, en það var aðeins lifrin sem yfirleitt var hirt. Þessa dagana var hæglát vestanátt og gerði snjóbleytu og síðan kafald á föstudag.

 

Síðan er frásögn dagbókarinnar á þessa leið:

 

1-4. Hæglátur SA. Mikið dimmt snjóveður. Fengum 16 hákarla.

5-8. Fengum 5 hákarla. Kl. 7 ½  kafaldsbylur. Kl. 8 rok. Kl. 7 fer á drift. Farið að létta. Komnir undir segl kl. 8.

9-12.. Stormur ONO. Kafaldsbylur. Heist þrírifað stórsegl, einrifuð fokka og stormkýfur.

1-4. Sami stormur og kafaldsbylur. Stýrt SSO. Kl. 4 brotnar stykki úr skjólborðinu.

5-8. Sama veður. Kl. 7 heist tvírifað stórsegl. Pumpan lens.

9-12. Sama veður. Kl. 9 ¼ 14 peilast Kópurinn SO ½  (mílu) undan. Fyrr sást ekki land.

 

Sunnudag 2. maí.

1-4. Rok stormur ONO. Kafaldsbylur. Lagt til og frá undir Skandahlíðum.

5-8. Kl. 4 ½  farið að sigla inn á Patreksfjörð. Lagst á Patreksfirði kl. 7 fyrir bakborðskeðju, 35 faðmar úti.

1-4. Nokkuð hægri. Sami kafaldsbylur.

5-8. Birtir nokkuð.

9-12 Hæglátur NO. Sama snjóveðrið.

Mánudag 3. maí.

1-4. Hæglátur NO. Kafald. Létt kl. 2 ½  og siglt út.

5-8. Bjart veður. Skýjað loft. Kl. 5 heistur lognkýfur og gaffaltoppsegl. Komnir að Tálkna kl. 7 ½ .

9-12. Sama.

1-4. Sama.

5-8. SO. Stundum logn. Heiðbirta. Kl. 6 komnir að Kóp.

9-12. Hvass SO. Kafald. Tekið gaffalsegl og lognkýfur, einrifað stórsegl.

 

Þriðjudagur 4. maí.

1-4. Hvass O. Kafald og frost. Kl. 4 komnir að Barðaskerjum.

5-8. Sama veður. Krussað inn Önundarfjörð.

9-12. Sama.

1-4. Lagzt á Flateyrarhöfn kl. 2 ½ , 30 faðmar úti af bakborðskeðju.

 

Ekki var lengi haldið kyrru fyrir á Flateyri. Þó var ekki byrjað að skipa lifrinni upp fyrr en kl. 5 á miðvikudagsmorgunn. Því var lokið kl. 3 ½  um daginn og reyndist aflinn úr túrnum vera 60 tunnur. Þá var sótt vatn um kvöldið. Kl. 6 á fimmtudagsmorgun var byrjað að taka kol og beitu. Kl. 10 farið að taka kost (mánaðar). Síðan var „gjört við tóverk og ýmislegt, sett stykki í skjólborðið og fleira“. En kl. 9½ um kvöldið var létt og siglt út.

Hákarlamenn munu almennt hafa trúað því að veiðin gengi einna bezt í grennd við hafísinn því að hákarlinn kynni þar vel við sig. Hinsvegar vissu allir að hafísinn var viðsjárverður og stórhættulegur. Ekki mun þó Páll Rósinkransson hafa óttast ísinn meira en sjó og vind. Þriðjudaginn 6. júlí 1897 lá Páll á Gretti á 120 faðma dýpi norður af Önundarfirði. Þann sólarhring veiddu þeir 86 hákarla en um hádegið bókar Páll þetta: „Hart frost. Allur reiðinn er svellaður". Undanfarna daga er þessa getið:

 

28. júní. „Létt frá ísnum."

 

29. júní. „Krussað vestur með ísnum.“ Þá legst hann á fimmtugu vatni norður af Sauðanesi.

 

1. júlí. „Létt kl. 4. Siglt frá. Lagzt á 70. Ísinn rétt fyrir neðan. Ísinn að reka vestur allt í kring“.

 

2. júlí. „Ísinn að reka hér í kring.“

 

3. júlí. „Ísinn hér rétt fyrir neðan.“

 

Sjöunda júlí veiddust 84 hákarlar og 8. júlí 80, 9. júlí 81 og til hádegis hinn 10. júlí 53 hákarlar. Þá var létt og haldið heim með 130 tunnur lifrar.

Þessar tilvitnanir sýna hvílíkur fróðleikur er geymdur í þessum gömlu bókum og mætti vera meira til af slíkum en er. Þeim var ekki ætlað annað hlutverk en hið réttarlega meðan á útgerð skipsins stæði. Meðferð og geymsla var svo eftir því. Þess var ekki gætt að þarna væru sögulegar heimildir fyrir seinni tíma. Það liggur við að segja megi sem svo, að fyrir vangá hafi gleymst eða farið í undandrætti að eyða þessum bókum og því sé nú hægt að rekja slóð þessa eina skips að 60 árum liðnum.

En úr því farið er að fjalla um þessar bækur ætla ég þó að bæta við tveimur sögum frá árinu 1898. Þar hef ég fyrir mér frásögn tveggja manna, sem það ár voru hásetar á Gretti með Páli Rósinkranssyni. Annar þeirra er Guðmundur Bjarnason frá Mosvöllum, sem enn er á lífi, nú í Reykjavík. Hinn er Guðmundur Kr. Guðmundsson á Tannanesi, sem nú er látinn fyrir fáum árum.

Guðmundur Bjarnason hafði sagt mér einstaka sögur frá veru sinni á Gretti með Páli. Þegar ég sá dagbækur Grettis fyrst fyrir nálega 15 árum, þótti mér bera vel í veiði að hafa þær til samanburðar. Þá innti ég líka Guðmund heitinn á Tannanesi eftir atvikum. Fannst mér, að af þessu öllu mætti fá glögga og örugga sögu. Það var 17. marz 1898 sem Páll Rósinkransson byrjaði vertíðina. Þá var talsverður ís á Flateyrarhöfn og varð að brjóta hann frá til að komast í gegn. Þegar út úr firðinum kom var hvass austanvindur, moldkafald og frost. Var legið til drifs meðan dimmast var um nóttina en „heist og siglt frá“ þegar dagaði. Var siglt austur að Djúpál og lagst þar. Gerði gott veður og aflaðist ágætlega, t. d. 128 hákarlar einn sólarhringinn. Hinn 27. marz „verður að létta frá ísnum. Þá var lagzt á Flateyrarhöfn um kvöldið kl. 9 ½  .

Klukkan 4 ½  um nóttina var „sótt lifrarskipið og farið að skipa upp.“ Kl. 9 ½  um kvöldið „búið að skipa upp lifrinni 114 tunnum.“ Daginn eftir, 29. marz, kl. 3 á nóni, var létt og siglt út. Úti var hvass og „dimmur með kafald.“ Var þá siglt frá. Undir hádegi var „komið út að ísnum á 50. Krussað vestur.“ Síðdegis er „siglt hjá Sigríði. Hún liggur við ísinn. Kl. 5 lagzt á 80 f.“ Ekki varð sú lega löng, því að þó að lagzt væri í logni var kominn hvass austanvindur kl. 9. Kafald og ákaflega mikið frost. „Kl. 9 farið að létta, búið kl. 10. Sigríður er sigld upp. Siglt upp.“

Hinn 31. er siglt upp í kafaldi, frosti og hvössum austan. Um hádegi birtir. „Höluð niður forseglin og farið að fiska. Fengum 30 þorska.“ Síðdegis er svo siglt frá og lagzt norður af Sléttanesi. Þá er hæglátt veður og farið að renna. Veiðast 8 hákarlar um kvöldið og 76 næsta sólarhring en þá er komið austan hvassviðri með frosti og kafaldi um kvöldið. Samt hafast þarna 25 hákarlar í bylnum til hádegis 2. apríl en þá er kominn stormur og „farið að létta kl. 1. Búið að létta kl. 3. Siglt upp beitivind.“ Kl. 2 um nóttina er „lagt yfir hálfa mílu undan Kópnum, Krussað austur og komið að Skagatöngum undir lágnætti.

4. apríl. „Krussað austur. Verður að hita sjó til að þýða kringum stýrið. Siglt inn á Önundarfjörð. Lagzt á Flateyrarhöfn kl. 11 ½ . Verið að brjóta klaka af skipinu utan og innan borðs til kl. 6.“ Morguninn eftir bjart veður og hæglátt en þó var verið að „gjöra við ýmislegt um borð“ fyrir hádegi. Kl. 2 ½  létt og siglt út. Þá var komið að ísnum 2 mílur út af Súgandafirði.

Miðvikudaginn fyrir skírdag, 6. apríl og fram á laugardag var verið að veiðum við tregan afla í misjöfnu veðri út af Dýrafirði. Á laugardag var siglt upp og komið í Önundarfjörð kl. 8 á páskadagsmorgun og lagzt á Flateyrarhöfn eftir hádegi. „30 faðmar úti af bakborðskeðju“. Kl. 5—6 rok. „Látið falla stjórnborðsakker. 50 faðmar úti af b.b.k. 30—40 af st.b.- keðju“. Það var ekki fyrr en á þriðja dag páska sem farið var að sækja vatn, kol og beitu. Þá var tekinn tveggja vikna kostur og síðan siglt út. Komið var að ísnum á fimmtugu út af Súgandafirði og siglt vestur með í þungavindi austan með kafaldséljum. Norður af Arnarfirði var lagzt til veiða. En strax næsta dag varð að létta frá ísnum. Þá var aftur lagzt norður af Blakknesi um hádegisbil, dregnir 6 hákarlar en „létt frá ísnum“ um kvöldið og siglt vestur. Undir morgun á föstudag var „lagzt á 120 SO t S á Látrabjarg".Þar veiddust svo 32 hákarlar það sem eftir var sólarhringsins. Á laugardaginn hvessti með kafaldsfjúki og var kominn stormur um kvöldið. Straumur var svo harður, að ekki hafðist botn þegar harðast var fallið. „Pertlínunni stikkað á enda.“

Sunnudaginn 17. apríl var stormur, kafald og frost en þó höfðust 16 hákarlar fram að nóni en upp úr því var „hætt að hafa úti línu. Ekki mögulegt að eiga við hákarl.“ En Páll var búinn að fá nóg af því síðustu vikurnar að hrekjast úr einum stað í annan. Hann ætlaði sér að „liggja af sér garðinn“ og halda veiðunum áfram þegar lægði. Hásetum Páls sumum þótti þetta tiltæki ofdirfska, einkum vegna þess, að þeir vissu ísinn nærri, enda urðu þeir varir við ísjaka á reki framhjá með kvöldinu. Grettir lá með þrírifað stórsegl og legustrenginn allan úti. Þá var það um kvöldið að þeir skipverjar sáu ísjaka mikinn stefna beint á skipið. Sá jaki var svo stór, að þeim virtist hann ná upp í mitt mastur. Sáu þeir skjótt hvers vænta mætti ef sá jaki héldi stefnu sinni og skipið biði kyrrt. Einn hásetanna, Páll Jósúason úr Skálavík, mundaði haka og bjó sig til að halda skipi og jaka í sundur með honum. Páll Rósinkransson vildi ekki bíða átekta og lét draga upp fokkuna og tókst honum þá að víkja skipi sínu til, svo að jakinn mikli skreið aftur með borðinu. Í dagbók sína hefur hann svo skrifað. „Kl. 10 sézt ísjaki fara hjá. Farið að létta.“ Skipverjum Páls þótti það ekki of snemmt að byrjað væri að létta en það var ekkert áhlaupaverk í því veðri og sjógangi, sem þá var. í dagbók skipsins er veðri svo lýst að verið hafi rokstormur austan, kafald og ákaflega mikið frost. Stóðu menn í léttingunni lengi nætur. Meðan á þessu stóð sáust af og til ísjakar á reki. Einn köggull sást beint framundan og bar að stefninu. Þá sagði Guðmundur Bjarnason: „Skyldi hann ekki fara nógu nærri þessi?“ Páll skipstjóri bað hann hugsa um sitt verk. En þegar þennan jaka bar að stefninu og undir bugspjótið, hjó skipið í báru og kvað við brestur mikill. Vissu menn ógjörla hvað brast svo hátt. Kallaði einhver háseta litlu síðar að sjór væri kominn í hásetaklefa og héldu sumir að hann óttaðist að skipið hefði meiðst til skaða. Svo var þó ekki, að neinar skemmdir væru á skrokknum á Gretti gamla. Dagbókin segir svo frá:

„í léttingunni kom ísjaki undir spruðið og á stefnið og brotnaði spruðið en hangir þó saman. Búið að létta nema 40 föðmum af pertlínunni, sem látið er drífa fyrir.“ Síðar er þess svo getið að hafi verið „beygður drekinn, sem allur var uppréttur þegar létt var.“ Það var ekki fyrr en á fimmtudag sem „brotnar spruðið.“ Þá var haldið heim á leið og daginn eftir „farið að útbúa spruð úr ár. Heistur klýfur.“ Á laugardagskvöld var svo lagzt á Flateyrarhöfn. Aflinn eftir 26 daga var þá aðeins 47 ½  tunna.

Að kvöldi dags 10. ágúst 1898 sigldi Grettir út Önundarfjörð. Gekk á ýmsu með veður næstu daga en þó var legið á hákarli út af Hornströndum og Húnaflóa. Laugardaginn 20. ágúst var lagzt á níræðu og „Hornbjarg í V t S.“ Þar veiddust 38 hákarlar á sunnudaginn og 13 aðfaranótt mánudags. Þá er „kominn þungavindur austan“ en samt veiðast 6 hákarlar framan af deginum. „Kl. 11 springur forhlauparinn, dreginn inn pertlínan. Heist tvírifað stórsegl, stormklýfur og fokka og siglt í vestur.“ Veðri er svo lýst að um miðjan dag hafi verið þokuloft og regn, síðan stormur og var þá stórseglið þrírifað en með kvöldinu gerði rokstorm og gekk í norðaustur og fylgdi því veðri kafaldsbleyta. Helgi Andrésson skipstjóri lá nærri Gretti á Sigríði þenan dag og sigldi upp um líkt leyti og þeir Grettismenn. Sigldi hann viðstöðulaust vestur fyrir Rit og inn í Ísafjarðardjúp. Hann á að hafa sagt þegar Grettir setti upp og sigldi af stað: „Hvað skal nú Páll ætla?“ í dagbók Grettis þetta kvöld segir svo: „Kl. 9 peilast Kögurinn S t O ½  míla frá landi. Hann sást ekki fyrr.“ Þegar ég sagði Guðmundi á Tannanesi frá þessari bókun sagði hann: „Það var nú enginn að peila þá. Það var nú ekki lengra upp í fjöruna en þarna að móhlaðanum.“ Mér virtist fjarlægðin að móhlaðanum vera innan við 100 metra. Það mun og vera rétt að fjarlægðin frá Iandi hafi verið ákveðin af sjónhendingu þegar Kögurinn birtist og hvítur brimskaflinn reis í rökkrinu fram undan skipinu. Páll var sjálfur undir stýri og lagði þegar yfir enda segir dagbók hans nú: „Siglt í NV. Kl. 10 lagt til drifs hérumbil 1 ½  mílu út af Straumnesinu. Kl. 11 ½  kom brotbára sem kantraði skipinu, jullan fór út og pertlína og forhlaupari og margt fleira og segl sem voru í lestinni skemmdust af grút, svo þau munu vera ónýt.“ Guðmundur Bjarnason var í rekkju sinni þegar skipið fékk þetta áfall. Vaknaði hann við þegar skipið kastaðist til og sjórinn fossaði niður. Kom honum þá fyrst í hug hvort þeir myndu vera komnir upp í fjöru og snaraðist upp á þiljur. Þar var þá óglæsilegt um að lítast. Skipið lá á hlið með lunningu í kafi, en skipsbáturinn fullur af sjó rambaði á lunningunni. Guðmundur á Tannanesi sagði mér svo frá að nafni sinn hefði stungið sér til sunds niður í lúkarinn hálffullan af sjó og kafað þar eftir kokksöxinni, komið upp með hana og höggvið julluna frá þeim hið skjótasta. Sjálfur vildi Guðmundur Bjarnason ekki heyra að hann hefði þurft að grípa til sunds eða kafa en hitt kannaðist hann við, að hann hefði sótt öxina og losað bátinn. Hitt er ekki ólíklegt að þeim félögum hans sumum hafi hrosið hugur við að sjá hann hverfa niður í myrkrið í hálffullan klefann. Þess má geta hér, að þegar þetta var, hafði Guðmundur Bjarnason lært sund í Reykjanesi hjá Ásgeiri Ásgeirssyni frá Arngerðareyri, sem síðan var lengi prestur í Hvammi í Dölum. Sagðist Guðmundur hafa orðið óragari við sjó og vatn eftir veru sína þar. Man ég, að hann tók einhverntíma til orða á þessa leið: „Ég var um tíma ekki mikið sjóhræddur“. Þá lét hann líka orð falla á þá leið, að horfur yrðu varla tvísýnni en í Straumnesröst á Gretti í þetta sinn. Þegar Grettir losnaði við skipsbátinn réttist hann við. En framhald dagbókarinnar eftir að getið er áfallsins er svo: „Pumpað var í klukkutíma þar til pumpan var lens. Það allra fyrsta sem hægt var, var lagt yfir með fokkunni og svo gjört við í lestinni sem aflaga fór og svo heist rifuð stagfokka og stormklýfur og siglt í V t N til kl. 6 ½ . Til kl. 7 ½  siglt í suður. Kl. 7 ½   siglt í suður. Kl. 7 ½  sést Sléttanes í SO hér um bil ½  míla undan landi. Siglt inn Arnarfjörð.“

 Þar er nú skemmst frá að segja að ferðinni var ekki létt fyrr en lagzt var á Bíldudalsvogi. Var fenginn skipsbátur að láni og maður keyptur til að fara vestur á Patreksfjörð með bréf til sýslumanns, þar sem hann var beðinn að skipa menn til að meta skemmdir á skipinu. Sendimaður kom um hæl með bréf frá sýslumanni, þar sem hann skipaði matsmennina, Þorkel Magnússon, skipstjóra og Kristján smið Kristjánsson. Þeir virtu skemmdir og skaða á skipinu 2100 krónur.

 

Hér verður nú staðar numið. Þessi brot sem hér er gripið í, sanna það að minni hyggju, að gamlar bækur eins og þessar siglingabækur, eru örugg og margfróð heimildarrit í látleysi sínu og ísköldum búning. Þær fylla þá mynd sem við eigum fyrir af hetjum skútualdarinnar, mönnum þeim, sem hrundu einna örast fram á leið efnahagsþróun þjóðarinnar, því að vafasamt er að nokkurntíma hafi þar munað örar og meira hlutfallslega en á skútuöldinni. Það voru mennirnir, sem stóðu skýlislausir við stýri, hjuggu klakann af skipi sínu, „láu af sér garðinn“ og strituðu lengi nætur við að létta, sem nytjuðu Íslandsmið og fluttu björg í bú. Okkur er skylt að varðveita sem gleggsta og sannasta mynd af þessum þætti íslenzkrar atvinnusögu. Allar þær heimildir, sem stuðla að því að svo geti orðið, hljóta að vera okkur kærar.