Áhugaverðir staðir

Vigur í Ísafjarðardjúpi

1 af 2

Í Vigur var stundaður blandaður búskapur allt til haustsins 2008. Þá var mjólkurframleiðslu þar hætt, en áfram er sauðfé í eyjunni til heimilisnota. Í Vigur er einnig rekin ferðaþjónusta á sumrum og hlunnindabúskapur er þar töluverður. Þar hefur sama ættin búið frá árinu 1884 er séra Sigurður Stefánsson settist þar að, og býr þar nú 4 ættliðurinn. 

Í Vigur er vindmylla, sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Hún var reist um miðja 19 öld og var notuð til mölunar á korni sem flutt var inn frá Danmörku, s.k. bankabyggi.  Þar er einnig elsti bátur landsins, áttæringurinn Vigur Breiður. Hann er talinn vera smíðaður um aldamótin 1800,  og var hann notaður til fjárflutninga á milli lands og eyjar allt til ársins 2000, og er hann í allgóðu ástandi. Í Vigur er einnig s.k. Viktoríuhús, sem er hús byggt árið 1862 af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið. Byggði hann það fyrir heitkonu sína Mörtu Kristjánsdóttur, heimasætu í Vigur. Húsið var gert upp árið 1993 og í viðbyggingu við það er aðstaða til móttöku ferðamanna. Nokkrir munir frá Byggðasafni Vestfjarða eru þar til sýnis.

Daglegar ferðir eru út í Vigur á sumrin frá Ísafirði.

 

Upp