Árið 2016 voru liðin 40 ár frá því að síðasta þorskastríðinu lauk. Upphaf þorskastríðanna má rekja til setningu landgrunnslaganna árið 1948 og fiskveiðilögsaga var færð út í 4 sjómílur árið 1952. Erlendar þjóðir, en þó aðallega Bretar höfðu löngum stundað umfangsmiklar veiðar við Ísland og nú voru hagsmunir þeirra í hættu. Togveiðibann var sett á erlend skip innan 4 mílna og vakti það hörð viðbrögð. Sett var löndunarbann á íslenskan fisk í Englandi. Samkomulag náðist milli þjóðanna með gerð löndunarsamnings í nóvember árið 1956.
Árið 1958 færðu Íslendingar lögsögu sína út í 12 mílur og olli það nokkurri spennu milli Íslendinga og hinna erlendu þjóða sem stundað höfðu veiðar á Íslandsmiðum, þó aðallega Breta. Samkomulag náðist um lausn deilunnar fyrrihluta árs 1961. Vildu breskir togarasjómenn meina að þessu fyrsta eiginlega þorskastríði hefði lokið með „stórsigri Íslendinga“.
Í febrúar árið 1973 var lögsagan færð út í 50 mílur. Enn kom til deilna milli Breta og Íslendinga, bæði pólitískra og líka kom til árekstra á fiskimiðunum þegar bresku herskipin og dráttarbátarnir neyttu aflsmunar gegn íslensku varðskipunum. Í þessu þorskastríði notuðu Íslendingar í fyrsta sinn leynivopnið sem margir segja að gert hafi gæfumuninn, hinar illræmdu togvíraklippur. Alls var klippt aftan úr 82 togurum í þessu þorskastríði, 66 breskum og 16 v-þýskum. Samkomulag náðist um lausn deilunnar í nóvember árið 1973.
Þann 15 október 1975 færðu Íslendingar fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur. Breskar freigátur og dráttarbátar voru send á miðin til verndar bresku togurunum. Ekki þótti togaraskipstjórunum þetta fullnægjandi vernd og þann 5 maí 1976 sigldu þeir út úr landhelginni í mótmælaskyni, en var þá snúið við og tilkynnt að bresku verndarskipunum hefði verið heimilað að „rífa íslensku varðskipin í parta“ og gera það sem þyrfti til að skipin gætu veitt í friði. Einnig sendu Bretar Nimrod þotur til að njósna um íslensku varðskipin og staðsetningu þeirra. Í þessu þorskastríði voru skráðar 54 ásiglingar bresku verndarskipanna á íslensku varðskipin, og freigátan HMS Falmouth gerði harða atlögu að varðskipinu Tý sem beinlínis var ætlað að sökkva varðskipinu.Var þetta harðasta ásiglingin í sögu þorskastríðanna. Klippt var aftan úr 48 breskum togurum í þessu þorskastríði. Íslensku varðskipsmennirnir sem og íslenskir stjórnmálamenn og samninganefnd Íslands sýndu mikið harðfylgi sem að lokum varð til þess að þann 1.júní 1976 voru undiritaðir samningar um 6 mánaða tímabundnar veiðar breskra togara innan landhelgi og þann 1.desember sama ár sigldu bresku togararnir út fyrir lögsöguna.
Klippurnar – leynivopn Landhelgisgæslunnar
Það sem bresku togaraskipstjórarnir hræddust hvað mest voru hinar illræmdu togvíraklippur sem Landhelgisgæslan beitti óspart í tveimur síðustu þorskastríðunum. Klippurnar voru hannaðar af Pétri Sigurðssyni forstjóra Landhelgisgæslunnar, og smíðaðar af Friðriki Teitsyni og Tómasi Sigurðssyni, járnsmiðum. Bresku herskipin og dráttarbátarnir reyndu sem mest þau máttu að vernda togarana frá klippunum, en íslensku varðskipin voru lipur og snör í snúningum og þeir sem voru við stjórnvölinn voru mjög útsjónarsamir. Oft náðu varðskipin að smeygja sér á milli verndarskipanna og togaranna og klippa á annan eða báða togvírana. Fyrstu klippurnar voru smíðaðar árið 1958, en þeim var ekki beitt fyrr en í 50 mílna stríðinu árið 1972. Fyrsti togarinn sem var klipptur var Peter Scott H-103, breskur togari sem var á veiðum 38 sjómílum vestur af Horni. Klippunum var einnig mikið beitt í 200 mílna stríðinu árið 1975. Með klippunum gátu varðskipin klippt veiðarfærin nær fyrirvaralaust aftan úr togurunum ef þau komust í tæri við þá og tekið þá úr umferð um tíma. Mikil leynd hvíldi yfir þessu gagnlega verkfæri Landhelgisgæslunnar og sem dæmi má nefna að klippurnar komu eitt sinn í viðgerð í Vélsmiðjuna Þór á Ísafirði. Lögreglan ók klippunum á staðinn og tveir varðskipsmenn stóðu yfir þeim sem voru að gera við klippurnar á meðan viðgerðin fór fram.