Að mestu er stuðst við grein Karítasar Skarphéðinsdóttur Neff sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 2010. En einnig fengum við nokkrar staðreyndir og viðbætur frá Gunnari Frímannssyni.

Karítas Skarphéðinsdóttir fæddist í Æðey við Ísafjarðadjúp þann 20 janúar árið 1890. Hún var dóttir hjónanna Petrínu Ásgeirsdóttur frá Látrum í Mjóafirði og Skarphéðins Elíasarsonar frá Garðstöðum í Ögursveit. Petrína móðirin lést úr lungabólgu nokkrum mánuðum eftir fæðingu hennar. Faðir Karítasar er skráður manntalinu 1890 sem tómthúsmaður á Laugabóli sem lifði af fiskveiðum. Seinna var hann bóndi í Efstadal með örfáar ær. En miklu lengur fékkst hann við sjómennsku, var vinnumaður og verkamaður eftir að hann flutti í þéttbýlið.

Sammæðra systur Karitasar voru, Anna og Friðgerður f. 15. 4. 1888, Anna fór í fóstur upp í Laugaland í Skjaldfannardal. Foreldrarnir fengu ekki að hafa bæði börnin hjá sér og lífvænlegri eineggja tvíburinn var settur í fóstur, Friðgerður varð eftir hjá foreldrum sínum í Æðey. Friðgerði var komið í fóstur hjá afa sínum á Látrum í Mjóafirði eftir að Petrína móðir hennar féll frá. Þar var hún 1891 – 1896 en þá var henni komið í fóstur hjá hálfsystur föður hennar, Sigríði Markúsdóttur, í Botni í Mjóafirði. Þar ólst hún upp.

Karítas var þó eftir í Æðey þar sem gömul kona annaðist hana fyrstu 2 árin,  þá kvæntist faðir hennar á ný, Pálínu Árnadóttur 4 árum seinna. Saman eignuðust þau fimm börn, Fyrsta barn þeirra, fæddist í nóvember 1892, þá voru þau í húsmennsku í Hagakoti sem er/var yst/nyrst í Laugardal. Þau fluttust í Laugaból í Laugardal 1893 og voru þar til 1898 en fluttust svo Efstadal í þeim sama Laugardal. Þar voru þau 6 ár í miklu basli, m.a. vegna veikinda Pálínu  sem var líklega sinnisveik. Þegar fleiri börn bættust í hópinn 1898 og á árunum þar á eftir hefur lífið ekki orðið auðveldara þó svo að Skarphéðinn sækti Önnu dóttur sína 10 ára yfir í Laugaland til að hjálpa til við heimilishaldið.

Hálfsystkini Karítasar voru: Petrína Sigrún f. 1892 í Hagakoti, Sigmundur Viktor f.1898 líklegast á Laugabóli, Sigurjón Skarphéðinsson f. 1901 í Efstadal, Magnús Skarphéðinn f. 1903 í Efstadal og svo Bergþóra sem fæddist á Gunnarseyri í Skötufirði 1910.

Karítas ólst upp við svipaðan kost og alþýðufólk fyrri alda gerði hér á landi, þó að tuttugasta öldin væri að hefjast. Einangrunin hefur verið mikil, því augljóst hvernig heimilisfólk hefur varla haft það á færi sínu að fylgst með utanaðkomandi breytingum. Fáir áttu leið eða erindi upp í Efstadal, var því ekki gestkvæmt á heimilinu. Við þessar aðstæður lögðu allir hart að sér í lífsbaráttunni, börn sem fullorðnir, Karitas var mjög liðtæk til vinnu, þrátt fyrir ungan aldur og fíngerða vöxt. Barnafræðsla var því ekki forgangsmál og sagðist hún sjálf hafa fengið tilsögn við lestur, skrift, reikning og kristinfræðslu í einn til tvo mánuði í kring um fermingu hjá prestinum.

Þrátt fyrir litla formlega menntun var Karítas vel versuð í sálmum, þulum og skáldskap. Mun það vera húslestrunum að þakka, bæði inn á heimilinu sem og þeim bæjum sem hún dvaldist á sem vinnukona. Sérstaklega minntist Karítas bæjarins Laugarbóls með mikilli hlýju, en sagði hún frá því í viðtali sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við hana á Hrafnistu árið 1966. Þar minnist hún einnig á kynni sín af Símoni Dalaskáldi, sem var víst svolítið fyrir að kveða í kvenfólk, þessu til sönnunar fer Karítas með stutta vísu eftir Símon:

Sigríður hér hýr á kinn
hreina og fagra píkan
fer að búa um Símon sinn
og sig nú kannski líka.

Sú alþýðumenntun sem Karítas hlaut, dugði henni vel síðar meir til að mæta bæði atvinnurekundum og stjórnmálamönnum þess tíma.

Karítas var gefin Magnúsi Guðmundssyni aðeins sextán ára gömul, en Magnús byggði hús fyrir Skarphéðinn föður hennar að launum. Magnús var þrjátíu og sjö ára ekkjumaður sem átti 4 börn, hann þótti góður handverksmaður og vann ýmis störf fyrir eignafólk í sveitinni. Dag einn kom Magnús til hennar með hring og sagði: „Nú erum við trúlofuð, vina mín.“  

Karítas og Magnús gengu í hjónaband 18 nóvember árið 1907. Baslið byrjaði strax en þó Magnús væri góður handverksmaður þá átti hann engar veraldlegar eigur.

Þau eignuðust 10 börn og átta af þeim komust á legg, tvíburar dóu nokkurra daga gamlir. Börnin voru: 1. Svanberg, f. 9. jan. 1909; 2. Petrína Sigríður, f. 5. okt. 1910; 3. Þorsteinn:4. Aðalheiður f. 3. okt. 1915; 5.-6. Guðmundur og Anna f. 3. júlí 1917; 7. Halldóra f. 24. júní 1918; 8. Skarphéðinn f. 16. febr. 1921; 9. Einar f. 4. júlí 1924 og 10. Pálína f. 25. júní 1926.

Árið 1916 tóku þau sig upp og fluttust í Hnífsdal, þar fengu þau inni í verbúð og Magnús fór á sjóinn. Í þessum verbúðum bjó allskonar fólk bæði einhleypingar sem fjölskyldur. Má nærri geta að of hafi slegið í brýnu milli manna, sérlega þegar sjómennirnir drukku í landlegum. Karítas var alla tíð mikil bindindis kona og bragðaði ekki áfengi allt sitt líf. Svo illa var henni við áfengi að hún taldi það vera stærsta sjálfstæðismál íslendinga að losna við vín bölið. Af þessu fara sögur og skrifar Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur minningagrein í Þjóðviljann 21. Janúar 1973:

„ En hann sá hana fyrst á framboðsfundi í Bjarnastaðaskóla á Álftanesi 1946: „Á aftasta bekk við austurenda skólastofunnar sat kona ein. Hún rís á fætur og biður um orðið. Fundarstjórinn, sem auðsjáanlega bar ekki kennsl á konu þessa, bað hana að segja til nafns síns. Hún svaraði: „Ég heiti Karitas Skarphéðinsdóttir“.

Mér varð starsýnt á konuna. Hún var klædd í skart. Skúfur skotthúfunnar féll með þokka fram á aðra öxlina, fyrir ofan skúfinn var gullhólkur. Svört silkitreyja, upphluturinn féll þétt að grönnu mittinu, silfurmillurnar glitruðu í birtunni sem lagði inn um gluggana. Hún var tæplega meðalkona á hæð, miðað við vöxt íslenskra kvenna af hennar kynslóð, en mér virtist hún vera einhvers staðar milli fimmtugs og sextugs. Andlitið frítt, hárið mikið og vel snyrt í fléttum, hnarreist var hún og upplitsdjörf. Hún leit rétt í svip yfir kjósendahjörðina, síðan nokkuð fastar á okkur sakborningana á frambjóðendabekknum og mér sýndist ekki betur en það brygði fyrir léttri fyrirlitningu í augnaráðinu þegar hún horfði á okkur. Hún beitti listrænni þögn um stund eins og æfð leikkona. Síðan hóf hún mál sitt.

Það mál sem ég ætla að ræða hér á þessum stað er sjálfstæðismálið. En það sem ég tel mikilvægasta sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar er áfengismálið.

Og nú vil ég spyrja háttvirta frambjóðendur, viljið þið útrýma áfengisbölinu og flytja áfengið út úr landinu? Og ég heimta skýr svör við spurningu minni.

Það duldist engum að hér talaði enginn viðvaningur. Orðin spruttu óhikað af vörum hennar, setningarnar felldar í fast mót, tungutakið eins og þegar íslenskan er tærust, með ilm af innbornu blómgresi.“

Árið 1922 flutti fjölskyldan til Ísafjarðar, þá var svo komið að íbúar Ísafjarðar voru orðnir 2020. Bæjarstjórnin greip þá til þess ráðs að auglýsa í landsblöðum auglýsingu þar sem utanhéraðsmönnum var ráðið frá því að flytjast til bæjarins. Það kom þó ekki í veg fyrir að íbúum héldi áfram að fjölga og náði sú fjölgun eins konar hápunkti árið 1945 þegar íbúar urðu 2919, en fækkaði eilítið upp frá því. Þessi mikla íbúaaukning á stuttum tíma skapaði því gífurlega húsnæðiseklu.    

Þannig fluttu þau, fyrst í timburhús sem áður hafði verið sláturhús og var kallað „Hjallurinn“. Þar fæddust yngstu börnin tvö, Einar fæddur árið 1924 og Pálína fædd árið 1926. Húsnæðið samanstóð af einu herbergi með eldavél í bíslaginu. Í þessu herbergi bjó fjölskyldan sem nú taldi 10 manns. Magnús smíðaði breið rúm svo börnin gætu sofið hlið við hlið, með eitt til fóta. Karítas var þá hætt að sofa með Magnúsi, enda kom það betur út að hún væri með yngstu börnin hjá sér. Oft var hart í búi en það hjálpaði þegar elstu drengirnir fóru á sjóinn og börnin voru send í sveit á sumrin. Nokkrum árum síðar fluttu þau í litla sæmilega íbúð í kjallara við Sundstræti 29. Þarna var þá aldrei kalt því í stofunni var kolaofn.

Þrátt fyrir mikla fátækt var vel fylgst með stjórnmálum og öðrum málum, bæði frá Ísafirði og Reykjavík. Þau voru svo heppin að geta líka hlustað á útvarp þó ekkert ættu þau sjálf. Þar kom til góðmennska húseigandans sem leifði að leiddur væri hátalari frá hans útvarpi og niður í kjallarann. Því var talsverður menningabragur á heimilinu, enda voru þau bæði bókhneigðar manneskjur.

Karitas lagði mikið upp úr því að koma elstu drengjunum í framhaldsskóla, því þeir voru efnilegir og hlutu hrós kennara sinna. Æðsta takmark drengjanna var að fara í Stýrimannaskólann, en það var dýrt að kosta tvö börn í einu til náms. Karítas sótti um styrk hjá bænum fyrir annan soninn og fékk hann. Báðir fóru svo í skólann og tóku svokallað „pungapróf“. Þeir fengu háar einkunnir og Þorsteinn hélt áfram, fór til Reykjavíkur og tók meiraprófið sem veitti honum skipstjórnarréttindi á stærri fiskiskipum. Karítas og Magnús glöddust mikið yfir þessu. Það var svo sjaldgæft að svona miklir fátæklingar gætu komið börnum sínum til mennta. En hvað stúlkurnar varðaði, þá tíðkaðist ekki hjá fátæku fólki að sækjast eftir menntun fyrir þær.

Árin (1922-1938) sem Karitas bjó á Ísafirði voru hennar þróttmestu ár, þá barðist hún hart i verkalýðsmálum, fylgdi fyrst róttækari armi Alþýðuflokksins, en gekk i Kommúnistaflokkinn þegar hann var stofnaður. Karitas sagði sjálf að þegar hún mætti á fund eða til átaka við atvinnurekendur og önnur afturhaldsöfl á Ísafirði, hafi hún jafnan skartað sínu besta. Sagt er að þessi vísa hafi verið ort um Karítas þegar hún var verkakona á Ísafirði:

Ein er gálan gjörn á þras
gulli og silki búin.
Kaffiskála Karitas
kommúnistafrúin 

Halldór Ólafsson lýsir aðstæðum og baráttumálum Karítasar vel í minningargrein: 

„ Þau Karitas og Magnús höfðu þannig fyrir mikilli ómegð að sjá, og urðu af þeim sökum að vinna bæði utan heimilis, þegar einhverja vinnu var að fá, en það var oft að skornum skammti, sérstaklega á kreppuárunum fyrir og eftir 1930. Vann Magnús aðallega við smíðar, en Karitas stundaði þá verkakvennavinnu sem mest gaf i aðra hönd, en það var að vaska saltfisk. Auk þess var hún i síldarvinnu a Siglufirði á sumrin. Þetta voru hvort tveggja óþrifaleg og erfið störf, og aðeins fær duglegu og kappsömu fólki. Hér var um að ræða ákvæðisvinnu, sem var svo illa borguð, að aldrei mátti slaka á, ef ná átti örlítið meiri tekjum en venjulegum daglaunum verkakvenna. Aðbúnaður við þessa vinnu, sérstaklega fiskvöskun, var auk þess þannig, að ekki var mönnum bjóðandi, og nútímafólki mundi ekki trúa ef lýst væri i öllum atriðum. Vaskið byrjaði venjulega síðari hluta vetrar og stóð yfir allt vorið. Athafnasvæðið var sums staðar undir berum himni, en oftast i skjóli og tjaldað fyrir til að verjast verstu næðingunum. Annars staðar, einkum á stærri fiskverkunarstöðvum, var vaskað i húsi, sem oftast þurfti að vera opið i báða enda.svo vindur mæddi þar um. Í frosti þurfti oft að brjóta klaka af vöskunarkössunum áður en byrjað var að vaska upp úr þeim. í þessu ískalda vatni þurftu verkakonur svo að vaska fiskinn, og þurftu þá að hamast eins og kraftar frekast leyfðu til þess eins að halda á sér hita.

Þessa erfiðu vinnu stundaði Karitas flest árin sem hún átti heima á Ísafirði, og þurfti þar að auki að sinna störfum á fjölmennu heimili. Vinnudagurinn varð því oft langur og erfiður. Dagvinnu tíminn á þessum árum var 10 stundir. Frá þessu var þó vikið þegar mest þótti við liggja, og voru vöskunarkonur þá kallaðar til annarrar vinnu þegar raunverulegu dagsverki var lokið. Ég kynntist Karitas, manni hennar og börnum, um eða eftir 1930. Það ár var Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður, og voru þau Karitas og Magnús meðal stofnenda flokksdeildar á Ísafirði. Hún starfaði einnig mikið i verkalýðsfélaginu Baldri, en á þessum árum var mikið starf i því félagi og fundir tíðir og stundum hávaðasamir, því oft urðu þar harðar deilur, en hér er tæpast viðeigandi að rekja þá sögu.

Ég vil þó ekki láta hjá liða að geta tveggja hagsmunamála verkafólks, sem Karitas beitti sér sérstaklega fyrir. Annað var krafan um bættan aðbúnað við saltfiskvöskun, þar sem meðal annars var farið fram á, að vatninu sem vaskað var úr, væri haldið það heitu, að ekki þyrfti að byrja á því að brjóta klaka al vöskunarkössunum þegar vinna skyldi hefjast á morgnana.

Hitt málið var krafa um kaffistofu á vinnustóðum, en á þessum árum varð verkafólk að drekka kaffið sitt svo að segja hvar sem það var statt, og lengi vel var enginn ákveðinn kaffitími. Bæði þessi mál mættu mikilli mótspyrnu atvinnurekenda, verkafólks og forystumanna þess, þó að mörgum muni þykja það furðulegt. Mun þar einkum hafa um ráðið ótti við að missa atvinnu ef bornar voru fram ástæðulausar kröfur, en á þessum árum þótti krafan um bætta aðstöðu á vinnustað jaðra við guðlaust athæfi.

Ekki man ég hvort krafan um að hita vatnið i vöskunarkössunum náði fram að ganga, enda er sú atvinnugrein fyrir löngu lögð niður. Þó var i kjarasamningum 1944 sett það ákvæði, að fiskþvottavatnið skyldi hitað upp eins fljótt og atvinnurekendur sæju sér það fært. Það liðu líka mörg ár þar til krafan um kaffistofu á vinnustaði náði fram að ganga. Nú er það ekki talinn boðlegur vinnustaður ef ekki er þar kaffistofa með sæmilegum húsgögnum. Verkafólkið sem drekkur kaffið við svo þægilegar aðstæður sem nú, mætti gjarnan minnast þess, að harða og langa baráttu þurfti til aðkoma fram svo sjálfsögðum og nauðsynlegum þætti.

Þó að þessi tvö mál hafi sérstaklega verið nefnd hér beitti Karitas sér fyrir mörgum hagsmunamálum verkafólks. Af þessum sökum varð hún fyrir aðkasti afturhaldsafla og jafnvel alþýðufólks. Það þótti á þessum árum ekki hæfa af „vöskunarkerlingu" að standa uppi i hárinu á máttarvöldunum.“

Uppúr 1930 hófst erfitt tímabil hjá fjölskyldunni. Elsta dóttirin, Petrína veiktist af berklum, en aðeins ári síðar fékk Halldóra sömu veiki, sem dró hana til dauða á aðeins þremur vikum. Einnig fengu fjögur yngri börnin snert af berklum. Áföllin héldu áfram, því yngsta dóttirin, Pálína veiktist alvarlega af berklum 1940 og varð að liggja heima í eitt ár. Snemma árs 1941 kom sú fregn í útvarpinu að Péturseyjar væri saknað, Þorsteinn sonur Karítasar var skipstjóri á því skipi og systursonur, Hallgrímur Pétursson, stýrimaður. Við rannsókn kom í ljós að skothríð þjóðverja hafði grandað skipinu, þar fórst öll áhöfn sem taldi tíu sjómenn um borð.

Nú liggur þingsályktunar tillaga fyrir alþingi íslendinga, um að heiðra beri minningu þeirra sem létust að völdum stríðsátaka í seinni heimstyrjöldinni, þar segir:

„Fyrir liggja heimildir um þann fjölda Íslendinga sem lést á stríðsárunum þótt heildartalan ráðist nokkuð af því hvað er álitið flokkast undir fall af völdum stríðsátaka. Í sumum tilvikum skortir upplýsingar um ástæður þess að skip fórust. Þó liggja fyrir tilgátur sérfræðinga sem hafa rannsakað þessa sögu og skráð heimildir. Má þar nefna Þór Whitehead sem gaf út verkið Ísland í hers höndum árið 2002. Gunnar M. Magnúss tók saman verkið Virkið í norðri III sem var endurútgefið með breytingum og viðbótum árið 1984 af Helga Haukssyni. Þar er yfirlit yfir alla Íslendinga sem létust af stríðs völdum. Af þessum heimildum má álykta að í það minnsta 153 Íslendingar hafi látist vegna árása á skip sem þeir voru á eða árekstra skipanna við tundurdufl. Um er að ræða íslensk skip og erlend skip sem höfðu íslenska skipverja um borð. Þetta eru 0,13% af íbúafjölda hér á landi miðað við manntal í lok árs 1940 (121.474). Þessu til viðbótar fórust 58 á tveimur skipum, Sviða og Max Pemberton, sem líkur standa til að hafi tengst árekstrum við tundurdufl. Einnig er gert ráð fyrir þeim sem féllu á Íslandi á stríðsárunum fyrir hendi bandarískra hermanna. Heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka var því um 211 eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940. Það er áhugavert að skoða þessar tölur í samanburði við hlutfallslegt mannfall annarra þjóða. Lauslegar tölur til samanburðar sýna að sem hlutfall af heildarfjölda íbúa er þetta sambærilegt mannfalli Dana og mun meira en mannfall Svía. Bandaríkin misstu um 0,2% af heildarfólksfjölda sínum í stríðinu, Kanada missti 0,4%, Bretland missti 0,7% og Frakkland 1,5%.“

Við hvert áfallið hertist Karítas og hellti sér í vinnu í stað þess að leggjast í sorg. Hún vann í sláturhúsinu, á reitnum, vaskaði fisk og vann síðar í rækjuverksmiðjunni. Á sumrin fór hún í síld til Siglufjarðar. Það var hún sem huggaði ástvini sína í sorg þeirra. Hún hvorki grét né barmaði sér þegar aðrir sáu til og hneyksluðust sumir á því hvernig hún bar sig. Þetta var hennar háttur til að komast yfir sorg og erfiðleika.

Alla tíð hafði setið í Karitas hvernig til þessa hjónabands var stofnað. Hún var aldrei spurð hvað hún vildi í þessum málum og var í henni beiskja sem að lokum leiddi til skilnaðar. Skapgerð þeirra var ákvaðalega ólík. Magnús var skapstór og alvörugefin þótt hann ætti til að taka þátt í söng og gleði, enda mikill söngmaður.Karítas var ákaflega létt í lund og söngelsk, enginn vafi er því að skapgerð hennar hjálpaði í mótlæti. Þá er ótalin sá eiginleiki hennar, kunna ekki að reiðast. Enginn sá hana nokkurn tíma rífast eða æsa sig. Þegar hún ákvað að skilja við Magnús 1936 fór hún hávaðalaust. Hún tók tvo yngstu börnin með sér, en hin voru farin að heiman. Þá leigði hún herbergi í fyrr nefndum Hjalli, en Magnús leigði herbergi í sömu götu. Þannig gátu börnin haft samband við hann. En auk þeirra skýringa, sem gefnar eru, hefur verið bent á að það hafi verið fjárhagslega hagkvæmt fyrir þau að vera skilin því að þannig hafi Magnús átt rétt á bótum frá hinu opinbera sem hann átti ekki ef hann var á framfæri konu sinnar. Skilnaðir voru ekki algengir á þessum tíma meðal barnafólks. Samkvæmt tölum frá Hagstofu voru skilnaðir 38 á öllu landinu árið 1936.

Tveimur árum eftir skilnaðinn missti Sigurjón Svanberg, hálfbróðir Karitasar sem bjó í Reykjavík, konu sína við barnsburð og bað Karitas að koma og aðstoða sig um stundarsakir. Þá flutti Karitas suður og var hjá honum um sumarið og flutti ekki Vestur aftur.

Karítas bjó víða í Reykjavík, Mosfellssveit, Hafnarfirði, á Vatnsleysuströnd og hún reyndi fyrir sér við búskap í Tröð á Álftanesi. Síðustu árin var hún á Hrafnistu í Reykjavík. Um tíma bjó Skarphéðinn faðir hennar hjá henni bæði í Tröð og á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd þar sem Skarphéðinn lést. Skarphéðinn hefur eflaust reynt að hjálpa til við búskapinn þó að hann væri orðinn giktveikur og hrumur síðustu árin. Hann hefur þá fengið einhvern ellistyrk en ekki er við því að búast að Karitas hafi fengið mikinn fjárhagslegan stuðning frá Sigurjóni hálfbróður sínum, þótt hann hafi á þessum tíma búið við allgóð efni, því að þau Karitas voru mjög á öndverðum meiði í pólitíkinni, hann hallur undir nasisma en hún kommúnisti.

Karítas lést á Hrafnistu árið 1972, lífstarf hennar skilaði árangri sem vert er að minnast, þráin eftir því að bæta og fegra samfélagið, þó ekki hafi henni alltaf verið þakkað fyrir.