Nú líður að Saltfiskveislu Byggðasafns Vestfjarða þann 20. júlí. Veislan verður í Turnhúsinu eins og á síðasta ári. Rýmra er um gestina og allir sitja undir sama þaki og gæða sér á hinum ýmsu saltfiskréttum sem Magnús Hauksson og starfsfólk hans í Tjöruhúsinu matreiða.

Að venju hljóma ljúfir tónar undir borðhaldinu. Að þessu sinni er það Bacalaoband Valda Mósa sem spilar, bæði við borðhaldið og fyrir dansi á eftir. Bandið skipa Valdimar Olgeirsson á bassa, Kristinn Gauti Einarsson á trommur, Tómas Jónsson á píanó og Birgir Olgeirsson með gítar og söng. Veislan hefst klukkan sjö þegar húsið opnar og stendur yfir fram eftir kvöldi. Miðaverði er stillt í hóf og er aðeins kr. 6.500,.

„Við munum leika dægurlög og fleira skemmtilegt frá hinum ýmsu heimshornum. Ég hef bæði unnið á Byggðasafni Vestfjarða sem almennur starfsmaður og einnig sem gestur í salfiskveislum liðinna ára svo nú verð ég í mínu þriðja hlutverki þarna“, segir Valdimar Olgeirsson. Sami hljómsveitarkjarni hefur fylgt veislunni í tíu ár, það er hin fábæra Saltfisksveit Villa Valla sem fær frí að þessu sinni.

Saltfiskveislan hefur verið haldin frá 2002 og því er hún í ellefta skipti í ár. Árið 2002 voru liðin 150 ár frá því Ásgeirsverslun var stofnuð á Ísafirði en höfuðstöðvar hennar voru lengst af í Neðstakaupstað. Verslunin var á sínum tíma umsvifamesti útflytjandi saltfisks frá Íslandi og því við hæfi að heiðra minningu fyrirtækisins á þennan hátt.

Miðapantanir í síma, 4563299 eða 8963291