Senn líður að formlegri opnun á Byggðasafni Vestfjarða þetta árið. Tekið verður úr lás á mánudaginn 16. maí og verður opið alla daga frá kl. 10-17 fram til ágústloka. Safnið verður síðan opið frá kl. 11-15 fram  í miðjan september eða allt þar til lokað verður formlega fyrir veturinn. Það er þó alltaf hægt að hafa samband við forstöðumann um aðrar opnanir utan hefðbundins opnunartíma og sjálfsagt að verða við beiðnum um slíkt. 

Það hefur verið þó nokkur gangur á gestakomum í maíbyrjun, ferðafólk sem er snemma á ferðinni og skipakomur sem hafa verið með rólegasta móti síðastliðinn tvö ár hafa byrjað og gefa einhverja vísbendingar um að hér verði tíðar skipakomur með allri þeirri umferð sem fylgir um svæðið. Efri hæðin sem tók miklum breytingum sl. sumar hefur vakið athygli og er almenn ánægja með þá fjölbreyttu flóru sem þar ber fyrir augu. 

Safnið var opið um páskana og var sett upp sýning með skíðavikuívafi og kenndi þar ýmissa grasa og fengust meðal annars að láni gallar og búningar til að gefa sýn hvernig fatnaður og aðbúnaður skíðaíþróttarinnar hefur breyst. Við færum þeim bestu þakkir fyrir sem lánuðu fatnað og aðra muni til sýningarinnar. Hönnun og uppsetning var í höndum Berglindar Bjarkar Sveinsdóttur og Örnu Dalrós Guðjónsdóttur. 

Fyrirhugaðar eru einhverjar breytingar á neðri hæð safnsins. Ísbirnirnir munu leggja land undir fót og taka þátt í sýningu á vegum Jóns Jónsonar /Bjarndýra- samstarfið sem mun ferðast á Sauðfjársetrið á Ströndum, á Patreksfjörð og síðar hér á Ísafirði. Það pláss sem verður við brotthvarf þeirra tímabundið, verður nýtt í fjölbreytt sýningarhald en von er á að hægt verði að opna sýningu á sjómannadaginn en nánari upplýsingar munu berast um þann viðburð síðar. 

Vinna og yfirferð á safnmunum hefur haldið áfram í vetur og framundan er stórátak í skráningarmálum safnins. Við yfirferð á munum hefur margt skemmtilegt komið í ljós, mónusúkkulaðiplata frá 8. áratug síðustu aldar, bismark brjóstsykursmolar í upprunalegum umbúðum frá Freyju, fatnaður, veski, buddur og pyngjur - lyklar og neftóbakshorn í tugatali. Allt þetta eru verðmætar handbærar heimildir um alþýðulíf fólks, handverk og framleiðsla sem eru áminning um hversu hraðar breytingarnar eru á umhverfi okkar og hversdagsleikanum. - Það vekur einmitt athygli á inntaki alþjóðlega safnadagsins sem verður núna 18. maí en þemað í ár er mikil er máttur safna. Söfn hafa mátt og getu til þess að breyta heiminum. Sem einstakir staðir til að uppgötvana fræða þau okkur jafnt um fortíðina og opna hug okkar gagnvart nýjum hugmyndum- sem hvort tveggja gerir okkur fært um að leggja grunn að framtíð. Frítt verður á safnið þann 18. maí n.k -