Vetrarsólstöður liðu og jólin gengu i garð. Nýtt ár með hækkandi sól er komið, á einhvern hátt öfugsnúið því það er með þíðviðri. Blikinn heldur sér hljóður við strandlengjuna og kollan er einhversstaðar á hafi úti þar til hún hittir sinn lífsförunaut. Það eru kaflaskil.

Ef það var eitthvað sem mér var ókunnugt í gangverki náttúrunnar leitaði ég til Björns eða Bödda eins og hann kynnti sig. Auk eðlisgreindar hafði hann mikla og sterka náttúrugreind. Hann las í hegðan fugla og horfði til himins og sagðist þess vegna eiga von á amrandaslætti þegar liði á daginn. Böddi var í senn nútímamaður og stoltur fulltrúi horfinna kynslóða. Hann átti líka rætur til mikilla mankosta, fólki sem vandaði til verka og var sinni sveit til sóma og forustu. Böddi var um skeið bóndi í félagsbúi við sitt fólk í krúnudjásni Djúpsins, eyjunni Vigur, sem var grunnur að menntun sem hvaða háskólasamfélag heimsins gæti verið stolt af.

Böddi kom til starfa hjá Byggðasafni Vestfjarða árið 2004. Þessi litli vinnustaður var í nokkrum vexti og fáar hendur unnu verkin. Það var gantast með það að safnmaður, a.m.k. sá sem vill þrífast á litlu safni, getur ekki verið grámyglulegur grúskari sem grúfir sig yfir fræðin í friði fyrir öllu og öllum. Hann þarf að kunna skil á öllu litrófi vinnumarkaðarins, allt frá sagnfræðigrúski, margskonar hönnunar, rekstrarkúnstar og skemmtanabransans. Allt þetta kom Böddi með úr Vigur í mali sínum og að auki var hann smiður á tré og járn, með undirstöðuatriði í vélfræði, svo hafði hann pungapróf og kunni pelastikk svo eitthvað sé nefnt - en síðast en ekki síst, náttúrugreind.

Eitt er að vera hrekkjóttur og annað að vera stríðinn. Hvortveggja fór saman í Bödda og þá í jákvæðustu merkingu þess. Hann meiddi aldrei nokkurn mann. Það var húmor, yfirvegaður og vandlega undirbúinn, sem réð ferðinni þegar sá gállinn var á honum. Fórnarlömbin komu aldrei sárir undan sendingunum, kannski örlítið skömmustulegir og niðurlægðir vegna þess að hafa ekki séð í gegnum hið flókna net hrekksins. Böddi var hvers manns hugljúfi og skemmtilegur maður.

Björn Baldursson frá Vigur var einstakur samstarfsmaður. Frá fyrstu stundu vorum við samstíga og jafningjar í vinnunni og vorum fljótir að finna okkar hlutverk sem bætti hvort annað. Hann var kvikur og lausnamiðaður á móti hægfara sveimhuga með vott af verkkvíða. Hann gekk, eða öllu heldur fór á spretti í öll störf og var ótrúlega fljótur að tileinka sér nýjar nálganir. Eðlislæg smekkvísi og víðfeðm kunnátta kom hann með úr eyjunni. Á einhvern hátt lék allt í höndunum á honum. Við rökræddum og deildum saman mörgum áhersluatriðum á sviði minjavörslunnar, má þar nefna vörslu bátaarfsins og strandminja almennt. Það bar aldrei skugga á okkar samstarf og það yljar manni að rifja upp fjölmörg skemmtileg atvik sem við upplifðum saman.

Kæra Ninna, Balli og Snjólaug – vinir og vandamenn. Með ósegjanlegum harmi og söknuði kveðjum við Margrét og fjölskyldur okkar kæran vin og samstarfsmann sem svo ungur fellur frá. Á litlum vinnustað erum við líkt og fjölskylda, sorgin umlykur og eina haldreipið er minning og virðing fyrir þeim verkum sem Björn Baldursson frá Vigur vann og innleiddi í okkar störf. Við áttum góð ár og eftirminnileg, fyrir þau erum við þakklát.

Jón Sigurpálsson