Nú á dögunum bættist mikill kjörgripur við safnkost Harmonikusafns Ásgeirs S.Sigurðssonar. Það voru hjónin Sigurður Mar Óskarsson og Guðný Hólmgeirsdóttir sem komu færandi hendi og færðu safninu sjálfspilandi konsertínu. Þetta hljóðfæri er líklega frá því um 1920 og er þannig uppbyggt að í því er pappírsrúlla með götum sem hefur að geyma lagið sem spila á, en svo þarf að draga hana sundur og saman til að trekkja spilverkið eins og venjulega konsertínu til að lagið spilist. Nokrar aukarúllur fylgdu hljóðfærinu sem er í góðu lagi. Hljóðfærið kemur frá Ásmundarstöðum á Melrakkasléttu, heimaslóðum Sigurðar. Talið er líklegt að hljóðfærið hafi komið með erlendum sjómönnum.

Hér má sjá spilað á samskonar hljóðfæri http://www.youtube.com/watch?v=CJUrUIZm2rM

 

Harmonikusafnið er í stöðugum vexti og telur nú rúmlega 190 harmonikur, og Ásgeir er hvergi nærri hættur að safna. Í sumar kom til hans kona frá Kaliforníu og eftir að hafa skoðað safnið sagðist hún vilja ánafna safninu harmoniku mannsins síns og lofaði að senda Ásgeiri hana í haust.