Byggðasafn Vestfjarða hefur ákveðið að setja upp nýja grunnsýningu fyrir sumarið 2017. Að þessu sinni er ætlunin að skoða betur fiskverkunina í landi.

Sýningunni er ætlað að útskýra hvernig staðurinn, norðanverðir Vestfirðir, mótast og mótar manneskjur. Hvernig er, veðurfar, jarðfræðin, vistkerfið, að búa á Ísafirði, hvað gerir fólk, hvernig skapast verðmæti og verðmætamat heimamanna?

Við höfum ákveðið að fjalla um líf og störf Karítasar Skarphéðinsdóttur (1890 – 1972). Þannig má líta á hana sem leiðsögumann sýningarinnar. Karítas var áberandi kona sem markaði spor í samtímann, þar að leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi. Barnabarn hennar Karítas Skarphéðinsdóttir Neff skrifaði um nöfnu sína ritgerð sem birtist 1993 í ritinu Lífshættir íslenskra kvenna, Auður Styrkársdóttir ritstýrði. Einnig skrifaði Björgvin Bjarnason grein í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga árið 2015, sem heitir Baráttusaga kommúnista á Ísafirði 1930 – 1935 þar kemur fram hverjir tóku þátt í verkalýðsbaráttunni á þessum tíma.

Titill sýningarinnar, (Ég var aldrei barn) kemur frá Karítas sjálfri, en hún lét þessi orð falla í viðtalsröð sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við hana á árunum 1966 – 1969, viðtalið er varveitt inn á vef Ísmúsar.

Tímabilið sem um ræðir, stendur með einn fótinn í  hugmyndafræði bændasamfélags 19 aldar eins og leiðsögumaður sýningarinnar gerði. Á hinn bóginn er Ísafjörður á þessum árum suðupunktur, þar sem grannt er fylgst með og tekin var upp hugmyndafræði alþjóðlegra stefna. Þannig mótaðist  þéttbýlið, með átökum ólíkra gilda, með átökum á milli kynja, með átökum þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki.

Karítas er táknmynd staðar og  hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna fyrir húsaskjól.

Rosi Braidotti hefur fjallað um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi  í bók sinni Metamorphoses: Towards a Materialist Theory of Becoming. Þar segir hún, líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega (macro) samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi (micro). Þetta vald hefur tangarhald á líkamanum og kemur sér oft fyrir í gegnum tækni. Þetta er sá kraftur sem keyrir áfram heimshagkerfið á kostnað líkama borgaranna.

Líkaminn sem miðja hins hugmyndafræðilega-, kynferðislega- og efnahagslega valds, er viðfangsefni sem kemur inn á flest svið samfélagsins. Sú sýn sem nýrri grunnsýningu er ætlað að birta, tekur afstöðu sem framlag inn í umræðu, sem nú er mjög virk á flestum sviðum fræða og lista. Sýningin leiðir áhorfendur, en er líka ætlað að vekja umræðu/samtal hjá gestum í samhengi við menningalega uppruna eigin persónu.

Þannig langar okkur að draga gesti alla leið inn að gafli, í þeim tilgangi að gefa persónulega upplifun á uppbyggingu staðarins.

Við hjá Byggðasafni Vestfjarða teljum það mikilvægt að svara kalli tímanns, með því að setja upp nýja sýningu. Þannig viljum við fjalla um og hleypa að fleiri röddum úr byggðarlaginu en hingað til hafa hljómað innan veggja safnsins. 

Okkur þætti vænt um að heyra frá þeim sem hafa vitneskju um lífshlaup Karítasar Skarphéðinsdóttur.