Birgitte Krøyer með tréskrín sem hún afhenti safninu til varðveislu
Birgitte Krøyer með tréskrín sem hún afhenti safninu til varðveislu
1 af 3

Nú líður senn að lokum safnsins þetta árið. Aðsóknin hefur verið með besta móti, vélsmiðja GJS á Þingeyri hefur vakið athygli og er vinsæll viðkomustaður á Þingeyri. Haldnir voru nokkrir tónleikar í Turnhúsinu á vegum Tjöruhúsins og vina. Sjö dagar sælir. Tónleikarnir voru vel sóttir og það má segja að Turnhúsið virkar sem fínasti vettvangur fyrir tónleika af þessu tagi. Í tvær vikur fékk safnið að njóta liðsinnis forvarðarins og safnafræðingsins Natalie Jacqueminet þar sem hún fór í gengum skráningu á safnkosti með starfsfólki og lagði til úrbætur sem safnið vinnur nú að um þessar mundir. 

Þann 14. ágúst stóðu Blái skjöldurinn og Byggðasafn Vestfjarða fyrir námskeiði - Öryggismál menningarstofnana: möguleikar á samstarfi.

Alþjóðasamtök Bláa skjaldarins – International Committee of the Blue Shield – voru stofnuð árið 1996 til að vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka. Það voru aðilar alþjóðasamtaka safna (ICOM), menningarminjastaða (ICOMOS), skjalasafna (ICA) og bókasafna (IFLA) sem komu að stofnun Bláa skjaldarins en grundvöllur í starfi hans er Haag-sáttmálinn frá 1954. Eins og áður segir er markmið Bláa skjaldarins að vinna að verndun menningararfs heimsins með því að samhæfa viðbragðsáætlanir þar sem hættuástand verður. Natalie sem er formaður Bláa skjaldarins var fyrirlesari á námskeiðinu og ræddi meðal annars um þær hættur sem steðja að safnkostinum hér á Ísafirði. 

Um miðjan ágúst kom hingað Birgitte Thorberg Krøyer frá Danmörku með forláta viðarskrín sem var í eigu móðurafa hennar, útgerðamannsins og símstöðvarstjórans Magnúsar Thorbergs Helgasonar f. 1881-1930 sem var búsettur hér á Ísafirði ásamt konu sinni Kristínu Thorberg. Móðir Brigitte var þriðja dóttir þeirra hjóna Rannveig Thorberg. Móðir hennar átti viðarskrínið sem samkvæmt Brigitte er frá sirka 1840, en Brigitte hafði spurnir að því að í Byggðasafninu væri munir frá móðurafa hennar. Slíkar heimsóknir eru áhugaverðar og skemmtilegar fyrir safnafólk þar sem ættingjar leita til upprunans og gera sér ferð til þess að feta fornar slóðir forfeðra sinna.