Í lok árs 2021 fengum við skemmtilega afhendingu á safnið. Védís Geirsdóttir kom færandi hendi með jólaskraut frá eiginmanni sínum Rögnvaldi Óskarssyni. Um er að ræða jólatrésskraut úr gleri, tveir jólahérar sem festir voru á greinar með klemmu. Þeir höfðu verið í eigu Svanlaugar Daníelsdóttur frá Miðfirði í Húnavatnssýslu. Hún var uppeldissystir Bjargar Rögnavaldsdóttur sem bjó á Ísafirði og á hér afkomendur. 

Hérarnir vöktu strax athygli okkar enda höfðum við ekki sé slíka áður og okkur lék forvitni á að vita uppruna þeirra. Við byrjuðum á að skoða bækur um þýskt jólatrésskraut en þó þar væru sannarlega jóla-hérar voru engir líkir þessum. Þá var það netið og þar fundum við uppruna héranna. Þeir voru framleiddir í Rússlandi á tíma Sovétríkjanna, að öllum líkindum milli 1950-1960. Það er áhugavert að skoða jólaskraut frá Sovétríkjunum en auk héra í ýmsum útgáfum er þar að finna geimfara, afa Frosta, kisur og ballerínur svo fátt eitt sé nefnt og svo auðvitað hinar hefðbundnu jólakúlur.  Ef til vill var flutt inn jólaskraut frá Sovétríkjunum í skiptum fyrir síld?