Að venju var góð aðsókn að safninu í sumar en alls komu um 13.500 skráðir gestir en stærsti hluti þeirra voru af skemmtiferðaskipum sem heimsóttu Ísafjörð. Safnið var opið frá miðjum maí og til loka september milli kl. 9 og 17 alla daga. Að auki var safnið opið þann 27. október í tilefni Veturnátta og komu um 50 manns í heimsókn, bæði til að skoða safnið og njóta veitinga eftir kertafleytingu. 

Smiðjan á Þingeyri var opin fyrripart sumars en því miður tókst ekki að tryggja daglega opnun seinnipart sumarsins en stefnt er á að hún verði opin alla daga frá vori til hausts næsta ár. Það er óhætt að segja að heimsókn í smiðjuna sé einstök upplifun.

Nú líður að jólum og við stefnum á jólasýningu í Neðstakaupstað. Að þessu sinni viljum við heiðra Grýlu og stefnt er að því að safnið verði opið laugardagana 14. og 21. desember. Nánar verður sagt frá því hér á vefnum þegar nær dregur.