Bátar í varðveislu Byggðasafns Vestfjarða

María Júlía BA 36

Byggðasafn Vestfjarða fóstrar hið fornfræga skip María Júlía í Ísafjarðarhöfn. Skipið er í eigu Áhugafélags um uppbyggingu skipsins og stofnaðilar eru Byggðasafns Vestfjarða og Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti. Félagið var stofnað árið 2004.

María Júlía er fyrsta björgunarskúta Vestfirðinga og á sér glæsta sögu sem slík, en ekki síður úr landhelgisstríðinu 1958 sem einn af varðbátunum í baráttu um yfirráð Íslendinga yfir fiskinum í sjónum í kringum landið. Skipið var síðan notað sem hafrannsóknarskipá milli stríða og björgunaraðgerða.

María Júlía er nátengd sögu Vestfirðinga. Skipið er 137 brúttósmálestir að stærð og 27,5 m að lengd, smíðað í Danmörku og kom hingað til lands snemma vors 1950. Auk þess að vera útbúið til björgunarstarfa var það hannað til að gegna fjölþættu hlutverki á sviði hafrannsókna og strandgæslu.

Saga skipsins

Það hafði lengi verið baráttumál sjómanna, slysavarnafólks og fleiri á Vestfjörðum að fá björgunarskip fyrir þennan landshluta. Má segja að fyrstu krónurnar sem söfnuðust til smíða á skipi því sem í fyllingu tímans hlaut nafnið María Júlía, hafi verið á Patreksfirði. Það var þegar sr. Einar Sturlaugsson hvatti til söfnunar á björgunarskútu fyrir Vestfirði í guðþjónustu í Patrekskirkju árið 1933. Þetta var upphafið en það var ekki fyrr en 17 árum síðar að draumur sr. Einars varð að veruleika. Í Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1950 segir svo um jómfrúarsiglingu Maríu Júlíu til Vestfjarða: „Á Vestfjörðum var skipinu fagnað á hverri höfn og því búin hin prýðilegasta móttaka. Með í för vestur var forseti Slysavarnarfélagsins og fulltrúar slysavarnardeildanna á Vestfjörðum. Er skipið fór fram hjá Bjargtöngum afhenti Þórður Jónsson frá Hvallátrum forseta Slysavarnarfélagsins kr. 1000,00 gjöf í minningarsjóð um Gest Jónsson bróður hans frá foreldrum Gests, systkinum og öðrum vandamönnum, en tilgangur sjóðsins skyldi vera að verðlauna skipverja á „Maríu Júlíu“ fyrir björgunarafrek“.

Fleiri Vestfirðingar lögðu fram mikið fé til skipsins, en stærst var þó gjöf hjónanna Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundar Br. Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði, sem árið 1937 gáfu mestallar eigur sínar í björgunarskútusjóð. Það þótti því vel við hæfi, þegar skipið var loks komið til landsins, að nefna það eftir Maríu Júlíu.

Björgunarskútan María Júlía þjónaði hlutverki sínu vel og er talið að áhafnir hennar hafi bjargað um tvö þúsund mannslífum á þeim árum sem hún var við þess háttar störf. Hún var að auki nýtt til hafrannsókna og landhelgisgæslu líkt og að hafði verið stefnt. Árið 1968 var María Júlía seld einkaaðilum og var eftir það gerð út til fiskveiða, ýmist frá Patreksfirði eða Tálknafirði, allt til ársins 2003 þegar henni var lagt.

Þegar hætt var að gera Maríu Júlíu út til fiskjar var hún enn vel haffær og í góðu ástandi. Kviknaði þá sú hugmynd hjá safnvörðunum á Hnjóti og á Ísafirði að kanna hvort söfnin gætu sameinast um rekstur skipsins, gert það upp í upprunalegri mynd og rekið það sem fljótandi siglingasafn enda má segja að minjasvæði Vestfjarða sé ekki síður hafið, eyjarnar og landmið af sjó, en fastalandið sjálft. Snemma sumars 2003 barst eigendum skipsins kauptilboð frá Suður Afríku. Var þá ákveðið að söfnin skyldu freista þess að ganga inn í kauptilboðið með einhverjum ráðum og tryggja að skipið færi ekki úr landi, enda um að ræða skip með mikið sögulegt gildi fyrir Íslendinga auk þess sem skipfræðilegt gildi þess er mikið. Með hjálp þingmanna úr kjördæminu var gert heiðursmannasamkomulag við eigendur skipsins um að söfnin fengju aðstoð þess opinbera við að ganga inn í kauptilboðið. Þannig var komið í veg fyrir sölu skipsins úr landi og svigrúm skapað til að kanna rekstrargrundvöll þess sem fljótandi safns.

Það er von okkar sem stöndum nú að skipinu að draumar okkar rætist og Maríu Júlía gangi í endurnýjum lífdaga og sigli á öldum hafsins sem fyrr,en með breyttu hlutverki og helgi strandmenningu Íslendinga.

Upp