Áhugaverðir gripir

Tygilhnífur Hannesar Hafstein

Tygilhnífin bar Hannes í belti sínu örlagadaginn 10. október 1899 í Dýrafirði. 

Breski togarinn Royalist.  Botnvörpuskipið sem var að ólöglegum veiðum á Dýrafirði í október 1899 reyndist vera Royalist H 428 frá Hull.  Þetta var stálskip, smíðað árið 1898 í Hull, 183 rúmlestir, með 58 ha. gufuvél og gekk 10 mílur.  Síðast var Royalist með heimahöfn í London, bar þá númerið LO 17, en var loks seldur í brotajárn 1935.  Dýrfirðingum þótti hart að hafa veiðiþjóf uppi í landsteinum og ekkert yrði að gert.  Hreppstjórinn á Þingeyri ákvað því að senda eftir sýslumanninum á Ísafirði og freista þess að taka togarann.  Tveimur árum  áður hafði sýslumanni Þingeyinga heppnast að færa enskan landhelgisbrjót til hafnar.  Ekki var auðvelt að leika þennan leik eftir enda urðu Bretar nú varari um sig en áður og herskárri.

Róið með sýslumann út í togarann.  Að kvöldi hins 9. október kom sendimaður hreppstjórans á Þingeyri til sýslumannsins á Ísafirði, Hannesar Hafstein, sem brást skjótt við.  Komu þeir að Mýrum í Dýrafirði daginn eftir og var landhelgisbrjóturinn þá enn að veiðum á firðinum, fram undan Sveinseyrarodda. Var yfirvaldinu vísað að leita aðstoðar hjá sjómönnum, sem væru að koma úr róðri við Hrólfsnaust, austan Mýrafells, til þess að fara um borð í skipið.  Hittist svo á að þá var Jóhannes Guðmundsson, formaður á svo kölluðum Meira-Garðsbáti, að koma að.  Skipaði sýslumaður honum að róa með sig og fylgdarmann sinn út í botnvörpunginn en Jóhannes var tregur til.  Eftir nokkurt þóf létu bátsverjar undan og var nú haldið rakleiðis að skipinu.  Veður var hvasst og kalt og gekk á með kafaldi.

Sýslumaður kallar til togaramanna.  Nokkru eftir að Meira-Garðsbáturinn var kominn í sjónmál við botnvörpunginn, út fyrir Mýrafell, þustu skipverjar að borðstokknum með barefli í höndum.  Ætluðu bátsverjar að komast um borð í togarann á kaðli, sem hékk út af honum miðskips, en þá var skipinu allt í einu snúið svo að skuturinn vissi að.  Gaf sýslumaður þá fyrirmæli um að tekið skyldi í annan af tveimur togvírum, sem lágu aftur af skipinu.  Stóð sýslumaður nú upp í bátnum, hneppti frá sér yfirhöfninni, þannig að einkennisbúningur hans kom í ljós, og hrópaði hátt og snjallt, bæði á ensku og dönsku, að hann vildi hafa tal af skipstjóra.  Ekki sinntu skipverjar þessu, létu ófriðlega og skutu ár að bátum en hittu ekki.  Að fenginni reynslu starfsbræðra sinna hafði sýslumaður fulla ástæðu til þess að leyna einkennisbúningi sínum fram á síðustu stundu.

Davíð SCH. Thorstteinsson gaf safninu hnífinn árið 2008. 

Upp