Áhugaverðir gripir

Koppsetningarstokkur

Koppsetningarstokkur
Koppsetningarstokkur
1 af 2

Það er margt sem rekur á fjörur Byggðasafnsins. Þetta áhald barst okkur fyrir nokkrum árum. Það hafði orðið innlyksa hjá sýslumannsembættinu á Ísafirði en hirðusamir menn tóku það til handagagns og afhentu það safninu. Þetta áhald sem nefnist „koppsetningarstokkur“ var mikið notað á fyrri tíð til „lækninga“ ýmis konar. Það samanstendur af 7 glösum eða koppum, lampa og bíld. Um þetta allt saman er vandaður kassi sem rúmar svo allar græjurnar. Lækningin fór þannig fram að koppsetjarinn hitaði glösin með lampanum þannig að þau fylltust af heitu lofti, svo voru þau sett á þá staði á líkamanum þar sem hinn sjúki kenndi sér meins. Var trú manna að glösin drægju út marið blóð djúpt innan úr holdinu sem væri orsök veikindanna. Þegar húðin var svo orðin blá og bólgin undir glasinu var oft skorið í hana með bíldnum til að hleypa blóðinu út.

Þetta tæki sem hér er, er líklega framleitt um 1860-1880. Ekki voru menn þó alltaf með svona góðar græjur við sínar lækningar, sumir blóðtökumenn notuðust bara við bíldinn (blóðtökuáhald) og tóku mönnum blóð, sagt var að blóðtökustaðirnir væru 53 og var oft tekið blóð á mörgum stöðum í einu, allt upp í 23 stöðum.  (Heimild:blodbankinn.is). Fyrir kom að menn hittu á slagæð og og þurftu þá blóðtökumennirnir stundum aðeins að bregða sér frá og sáust svo ekki meir og sjúklingnum blæddi út.

Ekki verður farið nánar út í þessa stúdíu hér sem er svo sem áhugaverð, en ýmislegt efni er til á hinum mikla vef, timarit.is , s.s. grein Jóhanns Sæmundssonar í blaðinu Helgafelli, 1.9.1942, og svo bara á alnetinu, gúglið bara „bloodletting“ og þið hverfið inn í heim blóðtökumannsins.

Upp