Sýningar

Árið 2011 / Fiskibók Jóns Sigurðssonar

Sýning Byggðasafns Vestfjarða á Lítilli fiskibók opnaði á Sjómannadaginn 5. júní kl. 13. Um er að ræða sýningu um hugmyndir Jóns Sigurðssonar til úrbóta í veiðum og vinnslu afla á 19. öld, eins og þær birtast í kveri hans Lítilli Fiskibók sem kom út árið 1859. „Nú er tími fyrir yður, Íslendingar, að hugsa um þetta mál, og það er tilgangur þessa litla bæklings að vekja athygli yðar á fáeinum atriðum þess,“ segir í kverinu. Sýningin fjallar um Litla Fiskibók eftir Jón Sigurðsson sem kom út árið 1859 og var leiðarvísir fyrir íslenska fiskimenn um veiðarfæri og vinnslu. Bókin var að hluta staðfæring á bókum eftir danskan mann, W. Heins, en byggðist einnig á reynslu Norðmanna og fleiri þjóða. Lítil Fiskibók var prentuð á kostnað yfirvalda í Kaupmannahöfn og útbýtt um landið. Vel var fylgst með öllu sem frá Jóni kom á þeim tíma og því var hún lesin með athygli. Einnig fylgdi Jón bókinni eftir með veiðarfærasýningu sem hann setti upp sama ár, 1859. Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Vestfjarða, Víkurinnar - Sjóminjasafnsins í Reykjavík og Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar. Hún er sett upp samtímis í Reykjavík og á Ísafirði, með sínum hætti á hvorum stað. Hljóðmynd með sýningunni gerði Mugison.

Upp