Fyrstu tilraunir til rækjuveiða við Ísland voru gerðar í Ísafjarðardjúpi á árunum 1923 - 1924. Þar voru að verki tveir Norðmenn sem búsettir voru á Ísfirði, þeir O.G. Syre, og Símon Olsen. Veiðarnar gengu vel, en þar sem ekki tókst að finna markað fyrir rækjuna var þeim hætt. Eftir þetta lágu rækjuveiðar niðri til ársins 1935, þegar þeir félagar hófu þær að nýju. Þá hafði heimskreppan orðið þess valdandi að margir leituðu nýrra leiða í atvinnumálum. Ákváðu bæjaryfirvöld á Ísafirði að gangast fyrir stofnun niðursuðuverksmiðju, og fengu til þess styrk frá Fiskimálanefnd. Var jafnframt samið við þá Syre og Olsen um að veiða rækju fyrir verksmiðjuna. Rækjuverksmiðja Ísafjarðar hóf svo starfsemi sína 23. júní 1936.
Rækjuveiðar voru stundaðar í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum allt til ársins 2003, en þá voru þær bannaðar sökum mikillar seiðagengdar og slaks ástands rækjustofnsins og síðan hafa þær ekki verið leyfðar.
Árið 2003 var sett upp sýningin Kampalampi í 80 ár í tilefni þess að 80 ár voru þá liðin frá því að fyrst var farið að veiða rækju til vinnslu á Íslandi. Plakötin sem voru á sýningunni eru aðgengileg á pdf. formi hér.