Neðstikaupstaður

Neðstikaupstaður

Neðstikaupstaður um 1920
Neðstikaupstaður um 1920
1 af 4

Þegar fyrstu einokunarkaupmennirnir komu á Skutulsfjarðareyri reistu þeir sér hús, líklega eitt timburhús og búðir úr torfi og grjóti. Elsta húsið sem enn stendur er þó nokkru yngra. Það er Krambúðin, sem byggð var 1757. Varla hefur þótt ástæða til að byggja vandlega yfir kaupmennina. Þeir höfðu sjaldnast vetursetu á Íslandi heldur komu að vori og fóru aftur utan til Danmerkur að hausti. Stundum mun þó hafa komið fyrir að kaupmaður sæti yfir veturinn en stjórnvöld voru lítt hrifin af því enda óttuðust þau að nærvera verslunarmanna á vetrum gæti glapið alþýðu til drykkjuskapar og eyðslu. Það var ekki heldur alltaf hollt fyrir kaupmennina sjálfa að sitja hér yfir vetrartímann. Að minnsta kosti einn sem það gerði, Adrian Jensen Munch, var myrtur í átökum við fjóra heimamenn. Hann mun hafa verið ófús til að selja þeim tóbak.

Árið 1764 tók Almenna verslunarfélagið við Íslandsversluninni og ákvað fljótlega að hafa vetursetumenn á öllum Vestfjarðahöfnum og á Eyrarbakka. Þar hefur ugglaust ráðið mestu að félagið hóf að kenna Íslendingum að verka saltfisk, sem var orðinn eftirsótt söluvara víða um Evrópu. Vestfjarðakjálkinn þótti heppilegur til saltfiskverkunar enda skammt á fengsæl mið og veðurlag hentugt fyrir slíka vinnslu. Vitanlega varð að byggja yfir verslunarstjórann, faktorinn, ætti hann að sitja hér árið um kring. Árið 1765 var því ráðist í að byggja íbúðarhús sem enn er búið í og kallað er Faktorshúsið. Um aldamótin 1900 mun á annan tug húsa hafa staðið í Neðstakaupstað. Auk Krambúðarinnar og Faktorshússins standa tvö þeirra enn, Tjöruhúsið, byggt 1781, og Turnhúsið, byggt 1784. Bæði voru þau byggð sem pakkhús.

Þegar verslunareinokun var aflétt árið 1787 tók félag danskra kaupmanna frá Altona við versluninni. Þeir entust aðeins í sex ár eða til 1793. Þeim kaupmönnum sem á eftir komu vegnaði betur og það er einkenni Neðstakaupstaðar að þar sátu kaupmenn yfirleitt lengi. Þegar verslun Altonamanna hætti tóku við félagarnir Jens Lassen Busch og Henrik Christian Paus. Verslun þeirra var rekin í 30 ár eða til 1824 þegar Matthías Wilhelm Sass stórkaupmaður keypti hana. Sass og afkomendur hans versluðu svo í Neðstakaupstað í 59 ár eða til 1883. Sú verslun vann það sér til frægðar að byggja fyrstu hafskipabryggju á Íslandi árið 1868.

Árið 1883 var verslun Sass seld Ásgeiri G. Ásgeirssyni og á næstu árum varð Neðstikaupstaður vettvangur umfangsmesta verslunarfyrirtækis í einkaeigu á Íslandi. Ásgeirsverslun var rekin allt til ársins 1918 þegar Hinar sameinuðu verslanir tóku við. Nú brá hins vegar svo við að líftími hinnar nýju verslunar varð stuttur. Árið 1926 urðu Hinar sameinuðu íslensku verslanir gjaldþrota og þar með lauk verslun í Neðstakaupstað.

Jóhann Gunnar Ólafsson  sýslumaður stóð í stafni þegar Byggðasafn Vestfjarða var endurlífgað upp úr 1950. Í nafni Byggðasafns Vestfjarða hóf hann þunga baráttu fyrir varðveislu 18. aldar húsanna á Ísafirði í greinum um byggðasafnið sem birtust ár hvert í Ársritum Sögufélags Ísfirðinga. Máli sínu til stuðnings vitnaði Jóhann í Hörð Ágústsson, listmálara sem skrifaði um þessi hús í menningartímaritið Birting 1962, 1. og 2. hefti. Á þessum tíma hafði bæjarstjórn ákveðið að láta rífa íbúðarhúsið í Hæstakaupstað. Skemmst er frá því að segja að með þessum athugasemdum Jóhanns Gunnars var þeirri ákvörðun frestað og óskaði bæjarráð eftir að Jóhann Gunnar skrifaði greinargerð um málefni hina öldnu húsa og ekkert varð að niðurrifi Hæstakaupstaðarhússins, húsanna í Neðstakaupstað og Salthússins á Þingeyri sem er frá sama aldursskeiði, Öll eru þau í dag sannkölluð krúnudjásn Ísafjarðarbæjar. 1975 voru þessi hús friðlýst samkvæmt ósk bæjarstjórnar og verður þeim sem stóðu í baráttunni fyrir verndun þeirra seint fullþakkað.

Þegar Ásgeirsverslun selur H.f. Hinum sameinuðu íslensku verslunum Neðstakaupstaðeignina 1918 var listað upp það sem nýir eigendur voru að kaupa. Það vekur athygli hvað byggðin var þétt í Neðsta og hvað mikið hvarf á síðustu öld.

„Neðstikaupstaður tekur yfir lóðina frá ysta odda svonefnds Suðurtanga að svonefndum Mjósundum, eins og hann nú er í eigu h.f. Hinna sameinuðu íslensku verslana í Likvidation og vísast: (A) þar um til lóðabréfs dags. 29. ágúst og 29. september 1885, ásamt með húsum og bryggjum, sem á lóðinni standa og hér er upptalið: 

 1. Smiðja með áföstu smíðahúsi og járni og áhöldum seljanda.
 2. Íbúðarhús. (Faktorshús)
 3. Brennihús.
 4. Fjós og hænsnahús
 5. Kjallarahús. ( Brennivínskjallarinn)
 6. Stjórnarhús, dönsku stjórnar.
 7. Nýja salthús (áður nefnt nýja kolahús).
 8. Gamla kolahús.
 9. Kornhús.
 10. Turnhús.
 11. Fiskhús og fiskþvottahús.
 12. Kolaskúr á bryggjunni.
 13. Gamla búðin, nú íbúðarhús. (Krambúð)
 14. íshús með öllum áhöldum.
 15. Tjöruhús.
 16. Bræðsluhús með áföstum nýjum skúr, lýsiskörum og öðrum áhöldum.
 17. Skúr á bryggjunni með 8 hkr. mótor.
 18. Pamelu skúr
 19. Gömlu og nýju bryggju.
 20. Rennibrautir.
 21. Galeasinn (notaður til olíugeymslu).“
Upp