Neðstikaupstaður

Krambúðin

1 af 3

Krambúðarhúsið var reist árið 1757 sem grindarhús. Verslun var í suðurendanum en vörugeymsla í norðurendanum. Notkun þess hélst að langmestu leyti óbreytt til ársins 1920, en þá var það allt þiljað á nýjan leik bæði að utan og innan og breytt í íbúðarhús.

Undirstöður voru svipaðar undir öllum húsunum í Neðstakaupstað. Þær voru mjög veigalitlar, aðeins einföld steinaröð sem raðað var á malarkambinn og aurstokkurinn lagður ofan á.

Elsta lýsing sem þekkt er af húsinu er frá árinu 1774. Þar segir m.a.: „Udi boden er afdeelt 2 de. kammre hvorudi er 8 vinduer og i boden 5 vinduer. Dessuden er i dette huus en rummelig afdeling bestaaende af 5 fag til pakbod med 1 fag vinduer og udgang til den nordre ende med 2 de. halv döre for. Uden for dörrene og vinduerne eer forsvarlige laase, jern stænger og bolte at sticke igiennem stolperne til at lucke med splitter indvendig. 
Boden og kammerene eer indvendig panelbeklædt med bræder og brædegulve. Loftet udi heele huuset er plöyet. Til opgang i loftet er en trappe. Udi hver gafl paa loftet er et vindue."  
Þegar Krambúðarhúsið var reist höfðu menn enn sem komið var ekki vetursetu á verslunarstaðnum en telja má líklegt að einhverjir af starfsmönnum verslunarinnar hafi búið í Krambúðarhúsinu um sumartímann. 
Grindarhús af þessu tagi voru reist víða á verslunarstöðum á Íslandi á 18. öld. Í Danmörku tíðkaðist að fylla húsgrind af þessu tagi af múr, þ.e. hlaða í hana múrsteinum. Slík hús voru þá sjaldnast klædd timbri, heldur var grindin og múrinn sýnilegur. Allmörg dæmi eru um grindarhús hér á landi sem hlaðið var múrsteinum í upphaflega, einkum íbúðarhús. Til að byrja með ætluðust menn stundum til þess að slík hús stæðu án frekari klæðningar eins og í Danmörku, en það gafst illa. Húsin urðu fljótt óþétt og timbrið fúnaði á skömmum tíma. Þessi hús voru nánast öll klædd timbri síðar. Engin ummerki sáust í Krambúðarhúsinu um að múrað hafi verið í grindina, enda var það einkum gert þegar um íbúðarhús var að ræða.

Upp