Áhugaverðir gripir

Cellini - Luttbeg

Cellini - Luttbeg
Cellini - Luttbeg

Byggðasafn Vestfjarða fóstrar harmonikusafn Ásgeirs S. Sigurðssonar. Safninu áskotnaðist mikill merkisgripur fyrir nokkrum árum. Það var Cellini Luttbeg harmonika, ein af 6-7 harmonikum þeirrar gerðar sem vitað er um af heiminum í dag.

Talið er að þetta eintak sé frumgerð, og að Max Luttbeg, sá sem fékk einkaleyfi á henni, hafi smíðað hana sjálfur í höndum og spilað á hana. Max Luttbeg var rússneskur og var þekktur fjölbragðaglímumaður. Hann fluttist til Bandaríkjanna upp úr aldamótunum 1900 og stundaði glímuna í nokkurn tíma eftir að hann flutti þangað. Eftir að hann hætti að stunda fjölbragðaglímu fór hann að leggja stund á harmonikuleik og vann fyrir sér sem slíkur um tíma auk þess sem hann vann að því að betrumbæta hljóðfærið. Sú harmonika sem hér um ræðir er smíðuð samkvæmt einkaleyfi nr. 1.825.407 og er útgefið 29. september árið 1931. Síðar seldi hann Soprani harmonikuframleiðandanum einkaleyfið og voru smíðaðar nokkrar harmonikur af þessari gerð undir nafni Soprani-Luttbeg, og einnig Bertini Luttbeg.

Þessi harmonika er sérstæð að því leyti að það er píanóborð beggja vegna, og þótti þetta byltingarkennd uppfinning á sínum tíma, en engu að síður voru einungis smíðuð 12 eintök af harmonikunni, þannig að ekki náði hún mikilli útbreiðslu.

Upp