Byggðasafn Vestfjarða efnir til veislu föstudaginn 15. júlí í Turnhúsinu í Neðstakaupstað. Að þessu sinni nefnist veislan Ávextir hafsins. Veislan verður með öðru sniði en hinar hefðbundnu saltfiskveislur safnsins og er tilefnið ærið svo ekki sé meira sagt. Það eru 230 ár frá því Eyri við Skutulsfjörð fékk kaupstaðarréttindi samkvæmt konunglegri tilskipun, svo því sé haldið til haga. Það eru

200 ár frá því að Eyri missir kaupstaðarréttinn í hráskinnsleik stjórnmálanna sem hrifsaði hann og flutti yfir til Grundarfjarða. Við það taldist Ísafjörður þeirra úthöfn sem íbúunum sárnaði og bjuggu við í hálfa öld, eða til ársins 1866 að Ísafjörður hlaut aftur kaupstaðaréttindi og að auki með eigin forráðum og bæjarstjórn. Upp á það er haldið ásamt því að 20 ár eru frá sameiningu sex sveitarfélaga og Ísafjarðarbær varð til.

Í rúm 15 ár hafa veislur safnsins verið með svipuðu sniði og eru orðnar að nokkurskonar ársfagnaði safnsins. Það þótti tilhlýðilegt að breyta til og hafa veisluna með öðru sniði af tilefni þessa margbrotna afmælisárs. Eitt er þó það sem einkennt hefur veislurnar, ljúffengur matur og tónlistarflutningur einvala tónlistarmanna. Oftast hefur það verið í höndum saltfisksveitar Villa Valla, en auk Vilbergs Vilbergssonar er söngkonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir, Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari, gítarleikarinn Páll Torfi Önundarson og Matthías M.D. Hemstock á slagverk. Þessi frábæra sveit mun ylja okkur með flutningi sínum að þessu sinni.

Kallaður var á vettvang Vestfirðingarnir Ingi Þórarinn Friðriksson yfirmatreiðslumaður og félagar hans Benedikt Fannar Gylfason og Hermann Ingi Kristinsson. Saman galdra þeir fram veislumat úr hráefni sem fæst hér við bæjardyrnar og setja í þann búning sem veislugestir allajafnan fá ekki. Má þar nefna m.a. tapas með saltfiski, saltfisk-carpacci ásamt heimalöguðu pestó og kartöflu-aioli, lunda úr Vigur með bláberjum og ætiþislakremi, kúlaðann steinbít með smjöri og sölvum, reykt þorskalifur á ristuðu brauði ásamt tómatsultu, grillaða hrefna með sætri sojasósu og kerfli, hrefnusmáborgara og ristuðu smælki, vel kryddaðar rækjur með kerfli, lambarifjur með saltbökuðum rófum, svartfuglsegg að hætti Inga og og í lokin skyr og rabarbara.

Þessi dýrðlega veisla hefst kl. 19:00 með fordrykk föstudaginn 15. júlí innanum safnmunina í Turnhúsinu.