Bátar í varðveislu Byggðasafns Vestfjarða

Gestur frá Vigur

Gestur í vígsluferð eftir viðgerð 2004
Gestur í vígsluferð eftir viðgerð 2004
1 af 2

Mótorbáturinn Gestur var smíðaður í Súðavík árið 1906. Smiðurinn var Guðmundur Sigurðsson, sem þá átti heima í Súðavík. Sá hafði að viðurnefni “smellir”. Gestur hefur verið talinn fjögurra manna far. Séra Sigurður Stefánsson í Vigur lét smíða Gest, enda var hann mikill áhugamaður um sjávarútveg.

Árið 1909 var sett vél í Gest, enda var vélaöldin þá að renna upp við Djúp eins og raunar var um allt land. Vélin sem sett var fyrst í Gest var þriggja hestafla Alfavél, glóðarhausvél sem brenndi steinolíu. Gestur var frá upphafi notaður til fiskiróðra, og alltaf frá Vigur. Raunar var hann notaður til allra þarfa og starfa svo sem ferðalaga og flutninga. Fyrsti formaður á Gesti eftir að vélin var sett í hann var Bjarni Sigurðsson, sonur Sigurðar Stefánssonar, prests og bónda í Vigur, eins og fyrr segir. Var þetta fyrsta árið sem Bjarni var formaður. Bjarni tók við búsforráðum í Vigur árið 1919 og bjó þar til ársins 1953. Allan þann tíma var hann formaður á Gesti, jafnframt búskapnum í Vigur, en sjósókn varð æ minni er árin liðu. Árið 1932 var sett ný vél í Gest, var það þriggja hestafla Sleipnisvél, rafkveikjuvél sem brenndi bensíni. Árið 1947 var enn skipt um vél í bátnum. Þá varð fyrir valinu 7 hestafla Sleipnisvél.

Gestur var alla tíð frá því að hann kom í Vigur árið 1906 notaður til allra þarfa og starfa, og mátti því heita þarfasti þjónninn. Árið 1988 varð samkomulag um að Byggðasafn Vestfjarða á Ísafirði tæki við Gesti til halds og trausts og varðveislu sem fulltrúa hins gamla tíma.

Upp